Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 15:52:25 (3081)

1999-01-13 15:52:25# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[15:52]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það voru kaflar í þessari ræðu hæstv. ráðherra sem voru efnislegir og allt í góðu lagi með. En á öðrum köflum féll hæstv. ráðherra því miður eins og stundum áður, og e.t.v. ekki í síðasta sinn heldur, ofan í stráksskap og útúrsnúninga. Skyldi það nú fara svo að þetta yrði síðasta stórræðan sem hæstv. ráðherra flytur um sjávarútvegsmál á sínum ferli þá verður þetta ekki nógu rismikill bautasteinn um hans feril eða fallegur svanasöngur.

Að það hafi verið rauður þráður í málflutningi stjórnarandstöðunnar að ekkert eigi að gera gagnvart dómi Hæstaréttar í fjögur ár er svo mikið kjaftæði að það er varla svaravert. Hæstv. ráðherra getur ekki verið að þessu, að vera að reyna að snúa svona út úr. Það er fráleitt að halda þessu fram. Við höfum þvert á móti kallað eftir viðbrögðum, en við höfum viljað að þau viðbrögð væru vönduð. Við höfum lýst efasemdum um að menn hafi þar hitt á rétta leið, eða a.m.k. viljað ræða að ýmislegt annað þyrfti að skoða og að hlutirnir þurfa að vera í samhengi. Það er langur vegur þarna á milli og hins að reyna að halda því fram að við viljum ekkert gera í fjögur ár.