Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 15:53:45 (3082)

1999-01-13 15:53:45# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[15:53]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Þegar ég var að vitna til þess að stjórnarandstaðan hefði lýst því yfir að hún teldi óþarft að gera hér nokkuð í fjögur ár þá var ég að vitna til tillögu sem hv. 8. þm. Reykv. mælti fyrir í gær en dró svo til baka með málefnalegum og skýrum rökum í dag. En það stendur að það sjónarmið sem kemur fram í tillögunni hefur verið rauði þráðurinn í málflutningi flestra talsmanna stjórnarandstöðunnar. Það kann vel að vera að hv. 4. þm. Norðurl. e. sé á öðru máli. En aðrir talsmenn hafa sagt að það sé engin þörf á að gera neitt strax og menn eigi að hugsa sig um, og þessi tillaga lá fyrir um að menn ætluðu að hugsa sig um í fjögur ár.