Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:01:27 (3089)

1999-01-13 16:01:27# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er tilbreyting að heyra hæstv. ráðherra lýsa því yfir að hann sé reiðubúinn að rökræða þá kosti aðra sem eru í boði varðandi stjórn fiskveiða en þá sem við höfum búið við. Það er nákvæmlega það sem við alþýðubandalagsmenn höfum verið að fara fram á að verði gert. Það séu ekki alltaf allar hugmyndir sem koma fram afgreiddar með frösum eins og hrun byggða, efnahagslegt hrun o.s.frv. Eðlilegt er að við veigrum okkur við því að flytja formlegar tillögur sem okkur sýnist miðað við þá framkomu sem hefur verið sýnd að verði bara felldar jafnóðum. Menn eru ekki tilbúnir að ræða þær, menn mæta ekki einu sinni í salinn til að hlusta. En það er aðeins eitt sem mig langaði til að benda hæstv. ráðherra á þegar hann hafði áhyggjur af trillukarlinum sem kæmi heim og segði konu sinni: Eimskip keypti allar veiðiheimildirnar, við höfðum ekki neitt. Ætli líðan hans gæti ekki verið mjög svipuð og þeirra 328 sem reka fyrirtæki sem var ætlað að lifa af 9 tonnum hefðu fyrstu tillögur sjútvrh. hæstv. og meiri hlutans fengið að ráða hér? Ég sá ekki að þessi umhyggja væri þá til staðar.