Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:07:45 (3094)

1999-01-13 16:07:45# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:07]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg kórrétt hjá hv. 3. þm. Vestf. að okkur hefur ekki tekist að hámarka afraksturinn af sjávarútveginum. Við eigum eftir að gera miklu betur í því efni en til þess þurfum við markaðskerfi. Við munum ekki hámarka afraksturinn með millifærslukerfi af ýmsum toga. Við þurfum að bæta okkur vegna alþjóðlegra skuldbindinga, til að mynda bara um útblástur, að ná meira af fiski með minni sókn. Varðandi verðbólguna skulum við alveg gera okkur grein fyrir því að við höldum henni ekki í skefjum og við höldum ekki stöðugu gengi nema við búum við fiskveiðistjórnarkerfi sem skilar fyrirtækjunum efnahagslegum árangri. Annars er það algjörlega vonlaust. Það er engin tilviljun að þær alþjóðlegu stofnanir, sem hafa verið að gefa út einkunnir til bankastofnana um lánshæfi Íslendinga hafa bent á fiskveiðistjórnarkerfið sem lykilinn að stöðugleikanum á undanförnum árum og hvernig staðið hefur verið að fiskveiðistjórninni. Við megum því ekki kippa þessu lykil\-atriði í burtu ef okkur á að takast að viðhalda stöðugleikanum í efnahagslífinu. En um það er ég alveg sammála hv. 3. þm. Vestf. að það er algjör forsenda fyrir því að við getum haldið áfram að byggja skynsamlega upp efnahagsstarfsemi og félags- og menningarstarfsemi í landinu sem stenst samjöfnuð við aðrar þjóðir. Um það þurfum við ekki að þrátta.