Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:39:25 (3099)

1999-01-13 16:39:25# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GHall
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:39]

Guðmundur Hallvarðsson:

Herra forseti. Það er eðlilegt að hér hafi verið mikið og ítarlega fjallað um lögin um stjórn fiskveiða svo mikilvæg sem þau eru þjóðinni og þjóðarbúinu. Ég ætla ekki að teygja lopa lengi í þeirri umræðu sem hér fer fram.

Hér hafa menn talað um það m.a. að nauðsynlegt væri að finna hina endanlegu lausn á lögum um stjórn fiskveiða. Í sjálfu sér er ég nokkuð hissa á því, því öllum hlýtur að vera ljóst að endanleg lausn verður aldrei nema í alræðislandi þar sem einræði ríkir, vegna þess að það mun aldrei gerast í lýðræðisríki að hin endanlega lausn verði fundin á neinum lögum, hvað þá heldur að hægt verði að setja hin endanlegu lög um stjórn fiskveiða.

Það er kannski rétt sem einn lögfræðingur sagði um allt kerfið, að það er mátulega stjórnlaust og flókið. Og þannig þarf það kannski að vera þegar vel er að gáð.

Í umræðunni um málið gat ég þess um helgina að það væri óásættanlegt. Þó nokkrar breytingar hafa orðið og meðferð málsins hefur styrkt stöðu smábátaútgerðar frá því að ég lét þessa skoðun mína í ljós. Ég hef þar af leiðandi breytt afstöðu minni. Hér var líka til umræðu lagatexti sem var reyndar kominn og gekk út á óskir LÍÚ um það að veiðiskyldu yrði aflétt af rækjuveiðiskipum vegna þess að ekki veiddist eða fyrirsjáanlegt var að sá kvóti sem úthlutað var mundi ekki veiðast. En frá þessum texta var fallið og það breytti líka miklu.

Hér var aðeins komið inn á innflutning skipa og hvort það væri eðlilegt og rétt að takmarka aðgang að miðunum með breytingu á siglingalögum hvað áhrærir skipakost. Það eru ekki mörg ár síðan að þessum reglum var breytt, það var 8. mars 1995. Með leyfi forseta, þá sagði svo, í lögum:

,,Skip, sem keypt er eða leigt frá útlöndum til skráningar hér á landi, skal hafa verið smíðað í samræmi við reglur viðurkennds flokkunarfélags um flokkuð skip eða sambærilegar reglur. Einnig skal slíkt skip fullnægja íslenskum lögum og reglum um styrkleika, búnað og haffæri. Skal skoðun fara fram áður en það er flutt inn. Að skoðun lokinni kveður siglingamálastjóri á um hvort hann mælir með innflutningi skips eða ekki.``

Þessi lagatexti sem ég var að lesa var breyting á eldri lögum frá 1993, þar sem var gengið var út frá því að ekki mætti flytja inn eldri skip en 15 ára. Þessi regla var afnumin. Þegar þetta mál var til umræðu, og á væntanlega eftir að koma upp aftur, þá spurði ég sjálfan mig: Er það Alþingis að setja útgerðinni nokkrar skorður um það á hvers konar skipum menn vilja stunda veiðar? Og er það Alþingis að hafa nokkur áhrif á það yfir höfuð hvort skip er kannski of stórt til ákveðinnar, tiltekinnar veiðiaðferðar eða of lítið? Það er ekki Alþingis að setja skorður við því að mínu áliti. Eðlilega á útgerðin að ráða því sjálf að teknu tilliti til þeirra krafna sem gerðar eru um aðbúnað og öryggismál.

Ég tel hins vegar eðlilegt að líta til annarra átta varðandi innflutning á notuðum skipum, eðlilegt að reglur séu endurskoðaðar þegar skip eru skoðuð af Siglingastofnun og að eðlilegt væri að skoða þá líka hvernig það gengur fyrir sig í nágrannalöndum þegar eldri skip eru keypt þangað og skráð undir fána, t.d. Danmerkur. Það tel ég að sé eðlilegt, en ekki að setja boð og bönn um innflutning notaðra skipa. Ég nefni sem dæmi Júpíter. Það er nýuppbyggt skip en skrokkurinn er líklega síðan 1956. Nefna má Örn frá Keflavík, síldveiðiskip frá 1962. Aðeins eru eftir eitt eða tvö prósent af skrokki þess en skipið er allt nýendurbyggt vegna afbakaðra reglna sem þá voru í gildi. Um daginn var að koma skip á Austfirði sem var smíðað 1972 en það er tvisvar sinnum búið að endurbyggja það o.s.frv.

Öll umræðan um stjórn fiskveiða hefur leitt til þess að markmið laganna hefur farið fyrir ofan garð og neðan. Það hefur skyggt á það sem þarf að gera í tiltektum laga um stjórn fiskveiða sem ákvæði þessarar lagasetningar gerir ráð fyrir, og ég styð heils hugar, þ.e. að endurskoðun skuli lokið fyrir lok fiskveiðiársins 2000/2001.

Herra forseti. Í samræmi við það sem ég hef hér sagt í örstuttu máli þá mun ég styðja þetta frv., því að eins og ég sagði áðan þá mun sú breyting sem fram kom í hv. sjútvn. verða til þess að styrkja smábátaútgerð í landinu og það er auðvitað öllum mjög í mun að gera með tilliti til atvinnuöryggis hinna dreifðu byggða.