Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:45:35 (3100)

1999-01-13 16:45:35# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, GE
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:45]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Ég mun flytja stutta ræðu. Ræða mín verður ekki miklu lengri en átta mínútur. Eins og ég hef áður sagt við virðulegan forseta sé ég engan tilgang í löngum ræðum almennt. Það getur þó komið fyrir að tilefni gefist til að halda langar ræður.

Herra forseti. Fiskimenn á smábátum eru búnir að fá nóg af því að vita aldrei frá ári til árs við hvaða skilyrði þeir eiga að búa. Það er í raun ærið nóg fyrir þessa sjómenn að berjast við náttúruöflin, þeir vilja vera lausir við baráttuna við hæstv. ríkisstjórn. Þeir vilja vera lausir við baráttuna við hæstv. ríkisstjórn ár eftir ár eftir ár.

Ég sagði í upphafi máls míns að ég ætlaði ekki að flytja langa ræðu enda breytir það kannski núna út af fyrir sig litlu þó að ég færi að lýsa öllum þeim tillögum sem liggja fyrir á síðustu þingum frá stjórnarandstöðunni, hvaða áhrif þær hefðu og að ég færi að túlka áhrif þeirra. En það er ástæða til, vegna sífelldra og endurtekinna árása hæstv. ráðherra forsætis- og sjávarútvegsmála, að nefna að það liggja fyrir, eins og ég sagði áðan, tveir tugir tillagna frá stjórnarandstöðunni um breytingar á lögum nr. 38/1990. Að auki liggur fyrir tillaga um breytingar á þessum sömu lögum frá hv. formanni sjútvn. á þskj. 191, 189. mál frá síðasta þingi.

Ég vil segja það, herra forseti, að ekki hefur verið hlustað á eina einustu tillögu af þeim sem fyrir liggja frá stjórnarandstöðunni og því er það til skammar fyrir þessa ráðherra að vera ekki viðstaddir við lok umræðunnar, það er til skammar fyrir hæstv. ráðherra að gerast tillögurukkarar eins og þeir hafa gert í sjónleikjum sínum í þessum umræðum og ekki var sístur harmleiksþáttur hæstv. sjútvrh. rétt áðan.

Ég ætla aðeins, herra forseti, að árétta skoðun mína á því hvernig á að fara með þá báta sem frv. sem við erum að afgreiða snýst aðallega um. Ég tel að allir bátar við núverandi aðstæður að sex tonnum eigi að vera í krókaveiðikerfinu. --- Ég þakka hæstv. sjútvrh. að koma hér, ég var að skammast yfir ræðu hans rétt áðan. En ég er að árétta skoðun mína á þessum málum varðandi sex tonna bátana.

Ég tel að dagakerfi, sem tryggði viðunandi afkomu, eða aflamarkskerfi með sama grundvallarsjónarmiði væri það kerfi sem hentar þessu útgerðarmynstri eða þessum bátaflota. Aflamarkskerfið er að mínu viti öruggasta kerfið til að koma í veg fyrir óskynsamlega og glæfralega sjósókn. Þetta segi ég alveg hikstalaust og hef sagt hér áður en grundvöllurinn verður að vera fyrir afkomu fólksins sem er með þessa báta.

Ég vil enn þá, ekki síst fyrir það að hæstv. sjútvrh. er í salnum, ítreka að stór hluti sjómanna er ekki frjálsir menn. Frjáls maður er sá maður sem er frjáls gerða sinn. Frjáls maður er sá sem á kosta völ. Það þýðir að það sem hann gerir er í sátt við samvisku hans og siðferðisvitund á hverjum tíma sem hann tekur ákvörðun. Maður sem verður að vinna eftir þeim kostum sem framkvæmd íslenska fiskveiðistjórnarkerfisins býður upp á er ekki lengur frjáls. Maður sem verður að henda veiddum afla, dauðum aftur í sjóinn vegna kerfisins sem hann býr við, er ekki frjáls maður. Maður sem býr við þann kost að hann verður að leigja til sín þorskkvóta á 96 kr. kílóið er ekki frjáls því að hann verður að henda öllum afla í sjóinn aftur sem gefur ekki arð. Sá sem býr við þessi skilyrði, herra forseti, er ekki frjáls. Sá sem verður að reikna 90 eða 96 kr. í kostnað við veiðar á hverju þorskkílói skilar ekki tekjum til ríkisins, hann skilar tekjum til sægreifans, hver sem hann er í hverju tilviki fyrir sig.

Í þessum viðjum eru fjölmargir sjómenn í dag vegna framkvæmdar fiskveiðistjórnarkerfisins. Ég segi vegna framkvæmdar fiskveiðistjórnarkerfisins. Ekki vegna kerfisins.

Herra forseti. Ég bað aðallega um orðið til að bera fram spurningar til hæstv. formanns sjútvn. og ég fagna því að hann er viðstaddur og vona að hann gefi sér tíma til að svara þessum spurningum. Þær lúta að hugmyndinni um 1.500 tonna byggðakvóta sem gert er ráð fyrir að unnt verði að úthluta á næsta fiskveiðiári. Ég tel að þau svör sem koma við þeim spurningum sem ég ber hér fram skipti mjög miklu máli.

1. Verður úthlutað aflaheimild til þeirra sem hafa selt eða leigt frá skipum sínum veiðiheimildir úr þessum kvóta?

2. Hvernig er úthlutunin hugsuð? Er um að ræða varanlega úthlutun eða er um að ræða úthlutun innan fiskveiðiársins þegar úthlutun fer fram?

3. Á hvern hátt er samráð við sveitarstjórnir hugsað? Munu sveitarstjórnir hafa eitthvað um það að segja hverjum verður úthlutuð veiðiheimild?

4. Verður það skilyrt að úthlutuð heimild skuli unnin í viðkomandi sveitarfélagi eða á að landa viðkomandi úthlutun í gegnum markað þannig að fiskurinn verði alveg rétt eins fluttur frá viðkomandi sveitarfélagi eftir markaðssölu?

Þetta eru spurningarnar, herra forseti, sem ég bið hv. þm. Kristin H. Gunnarsson, formann sjútvn., að reyna að gefa svör við. Ég ber þessar spurningar fram, herra forseti, vegna þess að það eru viðsjár á lofti varðandi afkomu sjávarbyggða víða í landinu. Það má t.d. bara nefna þær byggðir sem eru háðar rækjuvinnslu. Ég er ekki búinn að gera upp við mig hvort ég get stutt þessa tillögu. En svar skiptir mig miklu máli varðandi túlkun til þeirra sem nauðsyn getur orðið á að veita slíka byggðaaðstoð, sem gæti orðið um að ræða og eru líkur á að verði.

Að lokum lýsi ég þungum áhyggjum af þeim vanda sem krókabátakarlar standa frammi fyrir varðandi val á kerfi eftir einn og hálfan mánuð héðan í frá. Þeir geta lent í að kalla yfir sig gjaldþrot vegna valsins. Þess vegna hef ég áhyggjur af þessari lagasetningu. Ég lýk máli mínu með því að segja: Þeir sem eiga völina í þessu tilviki eiga svo sannarlega einnig kvölina.