Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 16:56:48 (3104)

1999-01-13 16:56:48# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SvG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[16:56]

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Óhætt er að segja að að mörgu leyti hefur stjórnmálaumræða batnað á Íslandi á undanförnum árum. Að mörgu leyti reyna menn að tala saman með rökum og reyna jafnvel að setja sig í spor pólitískra andstæðinga, velta því fyrir sér af hverju þeir segi þetta eða geri tillögu um annað. Hinn gamli útúrsnúningastíll, sem tíðkaðist um áratuga skeið og var aðallega upprunninn í flokksblöðunum, heyrist minna í þessari stofnun en hann gerði mjög lengi. Ég held að ástæða sé til þess að fagna því að umræðan er að mörgu leyti orðin þroskaðri og menn reyna að setja sig inn í málin, ekki aðeins þau sem þeir eru sjálfir með heldur líka þann málflutning sem andstæðingar þeirra eru með.

Nú er orðið ,,andstæðingur`` vandmeðfarið í þessu máli, einnig fyrir stjórnarflokkana. Það er líka vandmeðfarið fyrir okkur sem erum í stjórnarandstöðunni vegna þess að það þýðir ekki endilega það að við séum á móti öllu sem hinir eru með og það þýðir væntanlega ekki að stjórnarliðar séu á móti öllu sem við erum með. Það getur eiginlega ekki verið þannig vegna þess að þegar allt kemur til alls erum við í þessari stofnun í grófum dráttum til að láta gott af okkur leiða. Og ég held að það sé enginn maður hér í stofnuninni sem hefur ekki það markmið æðst í öllum verkum sínum þó okkur kunni að greina á um það hvernig það tekst á hverjum tíma.

Þetta segi ég vegna ummæla sjútvrh. í dag sem mér finnst fjarska ósanngjörn í okkar garð. Í rauninni finnst mér líka að við eigum þau ekki skilin vegna þess að ég held að við höfum reynt að vanda okkur, a.m.k. reyndi ég það eins og ég hafði vitsmuni til í ræðu minni í dag. Ég hafði ekki hugsað mér að snúa út úr einu eða neinu. Ég hafði heldur ekki hugsað mér að lýsa því yfir að allt sem stjórnin segði í þessu máli væri vitleysa þó að ég viðurkenni vissulega að margt af því er þannig að ég gæti hugsað mér að hafa þetta talsvert mikið öðruvísi.

Mér finnst t.d. ekki sanngjarnt að segja að ég hafi haldið því fram að óþarfi væri að bregðast við dómi Hæstaréttar. Það er ekki sanngjarnt. Það er alveg eins og ef ég segði að hæstv. sjútvrh. teldi að ekki ætti að bregaðst við dómi Hæstaréttar af því að frv. hans sé ónýtt í því skyni. Ég tel alveg ljóst að hann telur nauðsynlegt að bregðast við dómi Hæstaréttar og það teljum við öll hér í salnum.

M.a. af þeirri ástæðu var það sem enginn stjórnarandstæðingur greiddi atkvæði gegn frv. við 2. umr., af því að samstaða er um það í stofnuninni að það verði að bregðast við dómi Hæstaréttar. Það er ósanngjarn málflutningur, og hann er ekki sæmilegur heldur, að gefa í skyn að einhver hér inni sé svo skyni skroppinn og/eða forhertur, nema hvort tveggja sé, að menn vilji ekki bregðast við dómi Hæstaréttar. Það hefur enginn maður sagt. Ég ætla að biðja hæstv. sjútvrh. að nefna einn einasta þingmann sem hefur haldið því fram að ekki ætti að bregðast við dómi Hæstaréttar, einn einasta þingmann. Ef hann hefur skilið orð mín þannig er ég þess fullviss að hann hefur ekki hlustað nógu vel vegna þess að ég hagaði orðum mínum ekki þannig. Ég frábið mér þá uppsetningu mála sem hann hafði hér frammi, sem er fyrir neðan virðingu þess ágæta manns sem gegnir nú starfi sjútvrh.

[17:00]

Ég vil líka segja, herra forseti, að það er ekki meiningin af okkar hálfu með þeirri tillögu sem við alþýðubandalagsmenn fluttum við 2. umr. að gefa Hæstarétti langt nef. Svo er ekki. Við erum þeirrar skoðunar að tillaga okkar sé myndugt viðbragð við dómi Hæstaréttar. Þess vegna flytjum við hana, ekki af neinu öðru. Myndugt viðbragð við dómi Hæstaréttar.

Ég ætla ekkert að fara að rekja það í ræðu minni hver afstaða einstakra manna hér í þessum sal er í samtölum við mig, en ég ætla bara að segja það alveg eins og er, í tilefni af ummælum hæstv. ráðherra og því hvernig hann kom að málinu gagnvart okkur: Það er fjöldinn allur af þingmönnum stjórnarflokkanna sem á afar erfitt með að standa að afgreiðslu málsins eins og ríkisstjórnin gerir tillögu um, á mjög erfitt með það. Og fjöldinn allur af þessum mönnum telur að það hefði alveg getað komið til greina að bregðast við til bráðabirgða með svipuðum hætti og við alþýðubandalagsmenn gerum tillögu um.

Ég segi það líka að ég tel að í því efni höfum við --- þetta er skoðun mín, ég viðurkenni að hún er umdeilanleg --- lögfræðina okkar megin. Og ég tel að sú lögfræði sem við höfum okkar megin í þessum efnum sé ekkert verri en sú lögfræði sem hæstv. ríkisstjórn hefur sín megin. Ég tel að okkar lögfræðingar séu ekki óalandi og óferjandi, þeir sem við vitnum til, þó svo að þeir séu ekki á sama máli og þeir lögfræðingar sem stjórnarliðið kallaði til.

Ég ætla hins vegar í ræðu minni núna ekkert að fara yfir það hverjir þessir lögfræðingar eru því að það hefur verið gert áður. En ég ætla þó að nefna einn lögfræðing sem talaði úr þessum stóli í utandagskrárumræðu um viðbragð við dómi Hæstaréttar strax í upphafi. Það er maður sem ég met mjög mikils og ég veit að mjög margir þingmenn meta mjög mikils. Það er lögfræðingurinn og alþingismaðurinn Ragnar Arnalds, sem sagði það með allskýrum rökstuðningi að ekki væri hægt að treysta því að viðbragð sem eingöngu byggðist á viðbragði við 5. gr. málinu dygði sem svar við dómi Hæstaréttar.

Það er það sem við höfum verið að segja. Við höfum ekki verið að segja að það eigi ekki að bregðast við. Við höfum bara verið að segja að viðbragðið sé kannski ekki nægilega gott og við höfum leitt að því alls konar rök sem ég hef engan tíma til að endurtaka núna vegna þess að hæstv. forseti Alþingis boðaði atkvæðagreiðslu hér klukkan þrjú í dag, sem hefur svo dregist á langinn af því að sjútvrh. taldi ástæðu til að setja hér á almenna umræðu um sjávarútvegsmál, sem er fagnaðarefni.

Allir þingmenn hér telja sem sagt að það verði að bregðast við í þessu máli. Við alþýðubandalagsmenn höfum sagt sem svo: Það á að setja inn ákvæði um að lögin gangi úr gildi. Og það er reyndar hugmynd sem við höfum verið með í gangi hér í mörg ár, m.a. í þingmáli sem við höfum flutt, ég og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, ég held að við höfum flutt það tvisvar. Í öðru lagi höfum við sagt: Jafnframt verður að setja í gang endurskoðun á lögunum í því skyni að nýtt kerfi taki gildi um leið og þetta sólarlagsákvæði kemur til framkvæmda.

Höfum við skrifað það nákvæmlega niður hvað þá á að taka gildi? Við höfum nefnt ýmsa möguleika, eins og t.d. uppboð á hluta veiðiheimilda í áföngum og þannig niðurtalningu þessa kerfis í nokkur ár. Ég geri ráð fyrir því að við séum opin fyrir ýmsum öðrum hugmyndum vegna þess, herra forseti, að það er bara eitt ljóst í málinu og það er að núverandi kerfi, sem hæstv. sjútvrh. hefur varið með kjafti og klóm í átta ár er ólöglegt að mati Hæstaréttar Íslands. Mér finnst að honum farist ekki að vega að okkur jafnómálefnalega og hann gerði hér, maðurinn með hæstaréttardóm á bakinu, eftir að hafa reynt að berja þann skilning inn í þingið og þjóðina á undanförnum árum að hann sé með fullkomnasta kerfi í heimi.

Ég held að hann ætti líka að líta í eigin barm og velta því fyrir sér hvort hann hafi kannski að einhverju leyti verið á villigötum og hvort Hæstiréttur hafi þar með verið að segja: Ráðherrann hafði rangt fyrir sér. Ráðherrann fékk dóm frá Hæstarétti fyrir þær áherslur sem hann hefur haft í sjávarútvegsmálum. Það finnst mér að hann megi skoða í þessari stöðu. Það eru auðvitað býsna mikil tíðindi að staðan sé þannig, þó að það sé auðvitað líka þannig að margir aðrir hafi komið að þessu máli með margvíslegum hætti á undanförnum árum. En fremstur meðal jafningja í þeim hópi er tvímælalaust hæstv. sjútvrh. Það er ekki nokkur leið að neita því. Ég tel að hann hafi í málflutningi sínum ekki bent á neinar aðrar færar leiðir.

Mig langar að velta því upp, herra forseti, og ég veit að enginn getur svarað því, en ég velti þeirri spurningu fyrir mér eins og við öll: Hvað gerðist ef í sumar, þegar þingið er ekki að störfum, félli dómur í Hæstarétti sem felldi úr gildi hrygglengjuna í málinu, þ.e. 7. gr.? Hvað gerist þá? Er ekki skynsamlegt að búa sig undir það og fara í það núna, dagfari og náttfari, ef mögulegt er, að mynda um það samkomulag?

Það veit auðvitað enginn hver annan grefur í kosningum nú frekar en áður. En það er augljóst mál að með tilliti til þess hve málið er alvarlegt og viðurhlutamikið og hvað það snertir mikil grundvallaratriði í efnahags- og atvinnulífi þjóðarinnar, þá væri skynsamlegt að reyna að laða fram samstöðu hér í þessum sal hjá þeim flokkum sem ætla má að verði hér á vettvangi eftir kosningar a.m.k., um þá lendingu sem verður í þessum fiskveiðistjórnarmálum.

Ég mundi þess vegna ekki telja það skynsamlegt í sporum sjútvrh. að berja frá mér stjórnarandstöðuna með þeim hætti sem mér finnst að hann hafi gert, þó að hann kunni kannski sem einstaklingur að komast létt frá henni þegar kemur inn á næsta kjörtímabil, þá munu aðrir þurfa að eiga við það að glíma að ræða við fulltrúa ýmissa stjórnmálaflokka í þessum sal og ómögulegt að segja hver myndar hér stjórn eftir næstu kosningar.

Ég tel með öðrum orðum, herra forseti, að því miður sé það þannig að viðbrögð hæstv. ráðherra hafi ekki verið nógu málefnaleg og það er harmsefni, það er leitt til þess að vita. Mér finnst það ánægjulegt að hann hefur lýst því yfir að ekki sé hægt að takmarka stærð fiskiskipaflotans sem slíks bara með breytingum á siglingarlögum, það þurfi að gera á einhvern annan hátt, án þess að það liggi fyrir. Og ég krefst þess ekkert að hann svari því nákvæmlega hvernig það ætti að gera.

Hæstv. sjútvrh. talar eins og hann hafi allt valdið og allt vitið í þessu máli. Við þekkjum undirskriftir gömlu dönsku einvaldskonunganna þar sem textinn var ,,Vi alene vider``, vér vitum einir. Mér finnst stundum örla á því eins og hæstv. sjútvrh. telji sig vera með fullkomið kerfi, þó svo að hann hafi, eins og aðrir, fengið á sig þennan svakalega dóm.

Ég held hins vegar að það væri fróðlegt að velta því fyrir sér í þessu máli: Hversu sterk og traust er sú bygging sem hæstv. sjútvrh. talar úr í þessu máli? Það skyldi þó ekki vera glerhús þegar allt kemur til alls? Það skyldi þó ekki vera þannig að efasemdir séu í kringum hann eins og okkur hin? Eitthvað heyrðist mér að síðustu ræðumenn hér, fyrir utan hv. þm. Gísla Einarsson, væru ekki alveg þeirrar skoðunar að kerfið væri fullkomið. Eitthvað heyrðist mér að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson væri efins um að kerfið væri alveg fullkomið. Ég heyrði hann ekki mæra þetta kerfi. Ég heyrði hann þvert á móti segja að hann væri þeirrar skoðunar að hann væri ósammála sjútvrh. um allt nema eitt tiltekið atriði varðandi fiskveiðistjórnarkerfið. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er kosinn á þing af Sjálfstfl. Hann er fulltrúi Sjálfstfl. á Vestfjörðum. Og það er greinilegt að þeir eru í grundvallaratriðum ósammála um þetta kerfi. Það er alveg augljóst mál.

Og hvað með næsta ræðumann, næsta talsmann Sjálfstfl., hv. þm. Kristin Pétursson, fiskverkanda á Bakkafirði, sem hér hefur setið á Alþingi áður og þekkir gjörla til þessara mála og talar af mikilli alvöru um þau? Jú, hann var kosinn fyrir Sjálfstfl., að ég best man, á Austfjörðum, varamaður hv. þm. Egils Jónssonar og hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur. Mætur maður sem hér hefur verið lengi og ég vil hlusta á. Hann er ósammála hæstv. sjútvrh.

Það kemur með öðrum orðum í ljós að það eru a.m.k. tveir í ranni hæstv. sjútvrh. sem hreyfa spurningarmerkjum í þessu máli, það eru a.m.k. tveir. Kannski eru þeir fleiri? Kannski eru einhverjir sem hafa þagað í umræðunni og hefðu e.t.v. getað hugsað sér að leggja orð í belg með fleiri spurningarmerkjum? Talaði ekki hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson? Er hann ekki 6. þm. Reykv.? Er hann ekki kosinn af Sjálfstfl.? Hefur hann ekki um árabil verið formaður Sjómannafélags Reykjavíkur? Hann hefur verið í sjútvn. lengi, nýtur tiltrúar og stuðnings kjósenda í mínu kjördæmi, Reykjavík, og kosinn fyrir Sjálfstfl. Hreyfir hann ekki efasemdum í þessum sjávarútvegsmálum, þessum fiskveiðistjórnarmálum? Ja, ég heyri ekki betur.

Þá hef ég talið upp, herra forseti, alla þá sem talað hafa fyrir Sjálfstfl. í þessum umræðum fyrir utan hæstv. ráðherra. Það kemur í ljós að þeir eru allir á móti honum. Þeir eru allir á móti honum. Væri þá ekki skynsamlegra með hliðsjón af því að draga af sér í skömmunum á okkur hin þegar menn hafa staðið sig jafnilla í því að treysta stöðuna í eigin ranni?

Ég held, herra forseti, að það hafi komið mjög skýrt í ljós að hæstv. sjútvrh. skilar ekki þessari umræðu með þeim hætti sem a.m.k. ég vildi að hann gerði. Ég vildi heyra sjútvrh. viðurkenna það að málið sé flókið. Ég vildi heyra sjútvrh. viðurkenna það að stjórnarandstaðan teldi að bregðast þyrfti við dómnum. Ég vildi heyra sjútvrh. viðurkenna það að afstaða stjórnarandstöðunnar væri að vísu ekki fullkomin, en það væri þó verið að reyna að koma til móts við alvarleika stöðunnar með ýmsum hætti. Og ég hefði viljað heyra sjútvrh. viðurkenna að það verði að endurskoða þessi mál og fjalla um þau á ný á breiðum grundvelli. Ég hefði með öðrum orðum viljað að hæstv. sjútvrh. sýndi þinginu og þjóðinni sanngirni í því máli sem hér er uppi.

Ég hóf mál mitt á því, herra forseti, að segja frá því að ég teldi að stjórnmálaumræða á Íslandi hefði breyst. Hún hefur breyst. Hún hefur þroskast. Hún er málefnalegri. (SighB: Sjálfstfl. hefur nú ekki þroskast.) Jú, það er nú margt sem bendir til þess, það hefur nú margt lagast þar líka, m.a. síðustu þrjá ræður, hv. þm. Þannig að það er nú eins og gengur þar eins og annars staðar að það er allt á réttri leið og það er ekki allt ýmist hvítt eða svart, heldur eru hlutirnir oft einhvers staðar þar á milli.

Ég tel að stjórnmálaumræðan hafi þroskast, ekki síst vegna þess að menn eru komnir upp úr þessum gömlu skotgröfum flokksblaðanna, eins og þau voru hörðust hér áður, þó að ég verði að játa það að stundum sakna ég þeirra vegna þess að þá gengu menn nokkuð hreint til verks í pólitískri orrustu og þorðu að takast á eins og menn. En að sumu leyti fylgdu þeim alls konar leiðindi og skítkast sem er ósæmilegt fyrir viti bornar verur. (SighB: Góðir ritstjórar ...) Sumir höfðu góða ritsjóra, a.m.k. Alþýðublaðið. Önnur blöð eru mér of skyld til að ég segi margt um það. Vísir hafði jafnvel góðan ritstjóra um tíma. Mér dettur það í hug þegar ég lít hér mér á vinstri hönd. En það að slá allan málflutning stjórnarandstöðunnar út af borðinu með því að hún hafi ekki viljað bregðast við dómi Hæstaréttar, hún hafi viljað gefa Hæstarétti langt nef og slíkt, þetta er ekki málefnalegt. Svo mikið er víst, herra forseti, og gæti ég rökstutt það í ítarlegra máli ef hæstv. ráðherra kýs að halda þessari umræðu áfram sem ég þakka honum fyrir að hefja með jafnafgerandi hætti og hann gerði fyrr í dag.