Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 17:26:19 (3110)

1999-01-13 17:26:19# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[17:26]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á að óska hæstv. sjútvrh. til hamingju með þá sterku sannfæringu sem hann hefur í málinu. Það hefur minnkað í seinni tíð að menn flytji mál sitt af jafnmikilli sannfæringu og hann gerir. Það er eins og hann hafi fundið hinn endanlega sannleika. Það var mjög algengt hér fyrr á öldinni að menn töldu sig hafa uppi hinn endanlega sannleika. Hann er eiginlega fyrsti maðurinn í þessum ræðustóli í mjög langan tíma sem telur sig greinilega vera með algerlega fullkomið mál sem er yfir alla gagnrýni hafið og ég hlýt að óska honum allra heilla með þá sannfæringu hans vegna þess að meira get ég ekki sagt því það er alveg sama hvað er sagt við þennan ráðherra, hann hlustar ekki á það. Ég ætla þó að bæta hinu við, herra forseti, að gallinn við viðbrögð ríkisstjórnarinnar í málinu er aðallega sá að hann er ekki viðbragð. Að mínu mati er þetta ekkert viðbragð og að mínu mati felst í frv. ríkisstjórnarinnar frestun á því að taka á málinu. Þeim mun verri frestun en sú tillaga sem ég flutti því að frestunartillaga ríkisstjórnarinnar, sem hér á að lögfesta, gengur út á það að fresta þessu vandamáli um ótiltekinn tíma þangað til Hæstiréttur lemur þá aftur í hausinn.