Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 17:29:07 (3113)

1999-01-13 17:29:07# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, sjútvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[17:29]

Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) (andsvar):

Herra forseti. Lengi hefur verið ljóst að kerfi eins og þetta og öll önnur kerfi þarf að þróa, menn þurfa að laga það að aðstæðum á hverjum tíma og það höfum við verið að gera og það eiga menn eftir að gera. Ég tel að ýmislegt mætti bæta. Ég tel til að mynda að framsalstakmarkanir í núgildandi löggjöf séu of miklar. Ég held að þar megi gera á breytingar til að bæta raunverulega og efla markaðsleg áhrif kerfisins. Það er ýmislegt af því tagi sem ég held að menn þurfi að huga að, en aðalatriðið er það að ég er sannfærður um að þetta kerfi hefur skilað góðum árangri. Allar reynslutölur sýna það. Mat erlendra stofnana sem hafa borið saman árangurinn af þessu kerfi og öðrum kerfum sýna það. Mat sérfræðistofnana háskólamanna sýna að þetta kerfi hefur skilað miklum efnahagslegum árangri. Mat erlendra lánastofnana sem hafa verið að meta lánshæfi Íslands hefur verið það að þetta hafi verið forsendan fyrir stöðugleikanum í íslensku efnahagslífi og ég held að við Íslendingar getum verið býsna stoltir yfir þeim árangri sem kerfið hefur skilað.