Stjórn fiskveiða

Miðvikudaginn 13. janúar 1999, kl. 17:32:34 (3116)

1999-01-13 17:32:34# 123. lþ. 55.1 fundur 343. mál: #A stjórn fiskveiða# (veiðileyfi o.fl.) frv. 1/1999, Frsm. meiri hluta KHG
[prenta uppsett í dálka] 55. fundur, 123. lþ.

[17:32]

Frsm. meiri hluta sjútvn. (Kristinn H. Gunnarsson):

Herra forseti. Umræður sem hér hafa farið fram í dag hafa um margt verið athyglisverðar og málefnalegar að mínu viti og ég sé í sjálfu sér ekki eftir þeim tíma sem varið hefur verið til umræðunnar.

Til mín hefur verið beint fáeinum spurningum sem ég vil leitast við að svara af fremsta megni. Fyrst er fyrirspurn frá hv. 8. þm. Reykv. um skilning á ákvæðum í brtt. sem varða viðmiðun þorskaflahámarksbáta til úthlutunar á aflahlutdeild í aukategundum. Skilningurinn er á þann veg að velja á tvö bestu ár bátanna af árunum 1996, 1997 og 1998 og þau tvö bestu eru síðan grundvöllurinn að hlutdeild bátsins eftir þeim reglum sem gilt hafa um það hingað til og munu gilda áfram. En áður en valdar eru tvær bestu tölurnar eru aflatölur fyrir árið 1998 tvöfaldaðar og þannig breytt talan fyrir árið 1998 ásamt hinum tveimur eru þær þrjár tölur sem valdar eru tvær úr.

Í öðru lagi beindi hv. 8. þm. Reykv. til mín tilmælum um nánari útlistun á fyrirkomulagi varðandi ráðstöfun aflaheimilda sem Byggðastofnun eru faldar og enn fremur komu fram beinar spurningar frá hv. 5. þm. Vesturl. um það efni sem ég vil reyna að svara.

Í fyrsta lagi spurði þingmaðurinn hvort úthlutað yrði aflaheimild til þeirra sem selt hafa eða leigt frá sínum eigin veiðiheimildum, hvort útvegsmenn þeirra skipa ættu kost á að fá aflamark til veiða á yfirstandandi fiskveiðiári. Það er ekki útilokað. Það fer eftir aðstæðum hverju sinni. Eins og við höfum lagt málin upp í sjútvn. gerum við ráð fyrir að þessar aflaheimildir séu til ráðstöfunar til að bregðast við tilteknum aðstæðum. Við gerum ráð fyrir að einkum sé leitast við að búa til áætlun sem sé líkleg til varanlegrar lausnar, að svo miklu leyti sem unnt er að skilgreina það í bráð og lengd, fremur en að menn grípi til tímabundinna aðgerða sem auðvitað er þó ekki hægt að útiloka að geti komið til.

Við gerum ráð fyrir því að Byggðastofnun í samráði við sveitarstjórnir hafi forgöngu um að búa til áætlun til lausnar þeim vanda sem menn hafa skilgreint að er til og að um þá áætlun sem niðurstaða verður um að hrinda í framkvæmd verði gerður samningur milli aðila sem eru þá framkvæmdamenn í viðkomandi sveitarfélagi, þ.e. útvegsmenn, fiskverkendur eða aðrir sem gefa sig fram til þess að vera í forsvari fyrir atvinnulífinu, samningsaðilar sem þeir fá til sín til þess að skjóta stoðum undir þeirra áform og síðan Byggðastofnun. Við gerum ráð fyrir að allt verkefnið sé skilgreint nákvæmlega og um það gerður samningur þannig að menn séu bundnir af því að hafa lofað að gera ákveðna hluti og geti þá þurft að sæta ábyrgð ef um samningsrof verður að ræða. Þess vegna getum við ekki útilokað að þáttur í lausn málsins á einhverjum stað verði útvegsmaður sem eigi bát sem hann hafi leigt veiðiheimildir af það ár.

Í öðru lagi er spurt: Hvernig er úthlutun hugsuð? Er um að ræða varanlega úthlutun eða er um að ræða úthlutun innan fiskveiðiársins þegar úthlutun fer fram? Svarið er að eingöngu er um að ræða aflamark sem er til ráðstöfunar, þ.e. það sem kallað er ársúthlutun, en samningur sem gerður kann að vera getur orðið til lengri tíma en eins árs. Ef það er niðurstaða manna að til þess að koma fótunum undir viðkomandi atvinnufyrirtæki þurfi kannski aðstoð í tvö ár, þá er það mögulegt.

Í þriðja lagi: Á hvern hátt er samráð við sveitarstjórnir hugsað og munu sveitarstjórnir hafa eitthvað um það að segja hverjum verði úthlutað veiðiheimildum? Svarið er já. Þær munu hafa áhrif á það. Það verður hlustað mjög vandlega á sveitarstjórnir en við viljum ekki binda hendur Byggðastofnunar í því. Við teljum rétt að hún fái frjálsar hendur um að móta reglurnar. Vera kann að menn setji það upp að sveitarstjórnir verði að eiga frumkvæði að málinu og það kemur til álita að mínu viti. En ekki þykir rétt að festa það fyrir fram í lagatexta.

Í fjórða lagi: Verður það skilyrt að úthlutuð heimild skuli unnin í viðkomandi sveitarfélagi eða á að landa viðkomandi úthlutun í gegnum markað þannig að fiskurinn verði alveg eins fluttur frá sveitarfélagi eftir markaðssölu? Þarna er ekki alveg ótvírætt svar en við hugsum málið þannig að það verði meginverkefnið að efla atvinnuna í viðkomandi byggðarlagi þannig að menn hljóta að miða að því að fiskurinn verði veiddur og unninn af fólki úr viðkomandi byggðarlagi af fyrirtækjum sem þar eru. Það kann að vera í einhverjum litlum byggðarlögum að ástæða þyki til að styrkja tiltekna atvinnustarfsemi þó að þar sé engin fiskvinnsla á bak við.

Herra forseti. Ég vona að mér hafi tekist að gera bæði hv. 5. þm. Vesturl. og hv. 8. þm. Reykv. skýrari grein fyrir þessum áformum. Ég vek athygli á því að verði þetta samþykkt mun Byggðastofnun fara í að undirbyggja almennar reglur í þessu sambandi og sú stjórn sem nú situr mun væntanlega móta það að svo miklu leyti sem hægt er á næstu mánuðum. Síðan verður kosin ný stjórn að afloknum næstu alþingiskosningum og það verður þá verkefni nýrrar stjórnar að taka við því, fullklára og hefja framkvæmd málsins á nýju fiskveiðiári.

Ég vil víkja að einu atriði enn sem kom fram í ræðu hv. 5. þm. Suðurl. þar sem því var haldið fram að skriflegu erindi frá smábátasjómönnum hefði verið stungið undir stól á fundi sjútvn. og þeim aðilum meinað að koma sjónarmiðum sínum á framfæri. Ég vil bera til baka þessa fullyrðingu þingmannsins og þykir miður að hún hafi verið sett fram að óathugðu máli. Staðreyndin er sú að bréfum er ekki dreift samstundis að jafnaði heldur einfaldlega sett í möppur nefndarmanna þar sem þau eru aðgengileg þeim þegar þeir kjósa svo sjálfir. Í þessu tilviki var bréfið einungis staðfesting á þeim sjónarmiðum sem bréfritarar höfðu komið á framfæri á fundi nefndarinnar fyrr um daginn og því ekkert nýtt í bréfinu sem nefndarmönnum var ókunnugt. Það hafði því engin áhrif á umræðuna í nefndinni hvort menn fengu bréfið í hendurnar einhverjum mínútunum fyrr eða seinna. Ég vildi, herra forseti, leiðrétta þessa fullyrðingu og vænti þess að ekki verði um að ræða misskilning af þessum toga eftirleiðis.

Herra forseti. Þar sem umræðunni er að ljúka vil ég árétta eitt sem mér finnst standa upp úr eftir alla þessa umræðu. Það er auðvitað margt í okkar sjávarútvegi með þeim hætti að ekki eru allir sammála um hlutina. Um sum atriðin er meira ósamkomulag en önnur. En eitt held ég að menn verði að hafa í huga og það er að umræðunni, sem auðvitað er nauðsynleg til að leiða menn áfram frá einu ágreiningsefni til lausnar þess þannig að hægt sé að glíma við annað, getur aldrei lokið. Sjávarútvegurinn er svo stór þáttur í íslensku þjóðfélagi að það verða alltaf uppi álitaefni og um hann verða alltaf skiptar skoðanir. Svo er það nú, þannig hefur það verið og það mun verða svo áfram. Menn mega ekki vænta þess að sú umræða sem menn eru í núna og þær aðgerðir eða tillögur sem menn eru að biðja um eða viðhorf sem menn eru að lýsa leiði til þess að þeir finni hina endanlegu niðurstöðu í þessum efnum.

Ég vil segja um upphaf þeirrar umræðu sem fram hefur farið í þinginu undanfarnar vikur eða síðan í byrjun desember, þ.e. hæstaréttardóminn, að burt séð frá afstöðu manna til dómsins sjálfs, þá finnst mér að hann hafi leitt eitt af sér sem er mjög jákvætt. Það er að menn verða að fara að hugsa þessi mál. Menn geta ekki lengur litið svo á að við búum í óumbreytanlegum veruleika. Allt sviðið er undir sem eðlilegt er. Dómurinn ýtir við mönnum og menn verða því að fara að hugsa hlutina og brjóta heilann um hvaða tillögur þeir vilja leggja fram eða hvaða efnisatriði menn eru ósáttir um. Ég vænti þess að með þeirri tillögu sem stjórnarmeirihlutinn leggur til, að hefja endurskoðun laganna, þá höfum við einmitt mætt óskum um umræðu um sjávarútvegsmál á breiðum grundvelli um þá þætti málsins sem menn kjósa að taka upp.

Ég ætla ekki að lýsa viðhorfum mínum til málsins í einstökum atriðum eða löggjafarinnar. Ég hef oft gert það og þau eru öllum mönnum kunnug sem um þau vilja vita. En ég vænti þess að endurskoðun laganna á næstu tveimur árum leiði til einhverrar niðurstöðu. Það myndast einhver pólitískur meiri hluti á bak við tiltekna niðurstöðu að þeirri endurskoðun lokinni. Kannski felast í þeirri niðurstöðu litlar breytingar. Kannski felast í þeirri niðurstöðu meiri breytingar.

Ég legg áherslu á það að lokum, herra forseti, að þegar menn eru búnir að ákveða hvernig þeir vilja hafa hlutina í náinni framtíð, þá þurfa þeir að breyta því sem þeir hafa yfir í það sem þeir vilja og það verður að gerast hægt og rólega því að við erum með mikla hagsmuni undir og við getum ekki leyft okkur að fara ógætilega í þeim efnum.