Minning Bjarna Guðbjörnssonar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 13:34:45 (3125)

1999-02-02 13:34:45# 123. lþ. 57.1 fundur 216#B Minnst látins fyrrverandi alþingismanns#, Forseti ÓE
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[13:34]

Forseti (Ólafur G. Einarsson):

Bjarni Guðbjörnsson, fyrrverandi bankastjóri og alþingismaður, andaðist síðastliðinn föstudag, 29. janúar. Hann var 86 ára að aldri.

Bjarni Guðbjörnsson var fæddur 29. nóvember 1912 í Reykjavík. Foreldrar hans voru hjónin Guðbjörn Guðbrandsson bókbandsmeistari og Jensína Jensdóttir húsmóðir. Hann lauk gagnfræðaprófi í Reykjavík árið 1930 og kennaraprófi í Kennaraskólanum 1941. Árið 1946 var hann við starfsnám í banka í Kaupmannahöfn og 1946--1947 í banka í Stokkhólmi.

Bjarni Guðbjörnsson var bifreiðastjóri í Reykjavík á árunum 1933--1939. Starfsmaður Útvegsbankans í Reykjavík var hann 1941--1950, útibússtjóri bankans á Ísafirði 1950--1973, útibússtjóri bankans í Kópavogi 1974--1975 og bankastjóri Útvegsbankans í Reykjavík 1975--1983. Hann var norskur vararæðismaður á Ísafirði 1952--1974. Í bæjarstjórn Ísafjarðar var hann 1955--1970, forseti bæjarstjórnar 1962--1966. Í alþingiskosningunum 1959 og 1963 var hann kjörinn varaþingmaður Framsóknarflokksins í Vestfjarðakjördæmi og tók sæti um tíma á Alþingi 1960 og 1966. Alþingismaður Vestfirðinga var hann 1967--1974, sat á níu þingum alls. Hann var í stjórn Þingmannasamtaka Norður-Atlantshafsríkjanna 1971--1974, í stjórn Fiskveiðasjóðs Íslands 1975--1977 og í stjórn Iðnþróunarsjóðs 1979--1980.

Bjarni Guðbjörnsson ólst upp í Reykjavík og tók á unglingsárum og fram eftir aldri þátt í félagsstörfum um íþróttir og í kappleikjum. Á fullorðinsárunum varð hann bankastarfsmaður, aflaði sér þar þekkingar og reynslu. Þeim störfum gegndi hann rúma fjóra áratugi og fékk þar traust til æðstu ábyrgðarstarfa. Í þeim störfum og í störfum að bæjarmálum á Ísafirði hlaut hann náin kynni af atvinnumálum landsmanna og þau voru honum jafnan ofarlega í huga, ekki síst málefni sjávarútvegs. Hann kom ríkur að reynslu til Alþingis, sinnti þingstörfum af alúð, var vandvirkur í öllum störfum sínum, samstarfsfús, drenglyndur og hófsamur.

Ég bið hv. alþingismenn að minnast Bjarna Guðbjörnssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]