Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:03:05 (3137)

1999-02-02 14:03:05# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), Flm. SvanJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:03]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Er hækkun útsvars, skattahækkanir og frestun á einsetningu grunnskólans sá boðskapur sem ríkisstjórnin flytur nú sveitarfélögunum, kennurum og nemendum, fólkinu í landinu? Svo virðist miðað við ummæli hæstv. félmrh. Það var hagfræðingur VSÍ sem tók það að sér í fjölmiðlunum í liðinni viku að tugta sveitarfélögin til fyrir skuldasöfnun og hóta þeim fyrir hönd stjórnvalda ef þau brygðust meintu hagstjórnarhlutverki sínu. En sveitarfélögin í landinu hafa mörg mikilvæg hlutverk. Eitt af þeim er að eiga hlut að hagstjórninni. Fjárhagsstaða sveitarfélaganna ræðst ekki bara af ráðdeild og útsjónarsemi kjörinna fulltrúa heldur af sambandinu milli þeirra verkefna sem ríkið felur þeim og þeirra tekjustofna sem með fylgja því stærstan hluta tekna sinna þiggja sveitarfélögin frá ríkinu samkvæmt lögum sem Alþingi setur og sömuleiðis stærstu verkefni. En hagfræðingurinn tekur sérstaklega til aukin útgjöld til skólamála, að með aukningu þeirra hafi sveitarfélögin einkum brugðist. Það vita þó allir að skólakerfið íslenska hefur verið fjársvelt á undanförnum árum og á engan hátt undir það búið fjárhagslega að taka við breyttu hlutverki við nýjar kröfur.

Átök við kennara og erfiðleikar í skólahaldi er ekki sú ímynd sem sveitarfélögin vilja eða þola. Þjónusta við fjölskylduna er að mestu komin á þeirra hendur og það er krafa fólksins að þjónustan sé bætt, að fjölskyldan sé í fyrirrúmi. Þar liggja hinar nýju pólitísku áherslur. Hefur það hvarflað að ráðherra eða ríkisstjórn að tekjuskiptingin milli ríkis og sveitarfélaga sé einfaldlega orðin röng nú þegar sveitarfélögin fara með mest af þjónustu við fjölskylduna, krafan stendur á þau um meiri og betri þjónustu? Getur verið að tekjuskiptingin sé byggð á gömlum hugmyndum sem eru langt frá þeim kröfum sem gerðar eru í dag?

Ef ríkisvaldið vill styrkja byggðina í landinu og gera sveitarfélögunum kleift að rækja hlutverk sitt þá þarf að bregðast við. Og hver er þá stefna ríkisstjórnarinnar? Það liggur ljóst fyrir að þau viðhorf sem hæstv. félmrh. hefur viðrað um útsvarshækkanir eru í beinni andstöðu við viðhorf sem fram komu hjá hæstv. forsrh. hér í haust þegar sveitarfélög eins og Reykjavík og Vestmannaeyjar ákváðu að nýta svigrúm sitt. Það eru ýmsar áleitnar spurningar, herra forseti, sem snúa hér að ríkisvaldinu. Ég hef því óskað eftir svörum við eftirfarandi spurningum.

Fyrsta: Er hækkað útsvar og frestun á einsetningu grunnskólans raunverulegt úrræði skuldugra og aðkrepptra sveitarfélaga? Langflest sveitarfélögin hafa þegar gert ráðstafanir til að einsetja sinn skóla.

Og hvað með hækkun útsvarsins? Í öðru lagi spyr ég nefnilega: Þar sem mörg skuldugustu sveitarfélögin eru nú þegar með útsvarsprósentuna í toppi, verður þá hámarkinu lyft fyrir þau sérstaklega eða stendur til af hálfu ríkisstjórnarinnar að leggja til á Alþingi að leyfð verði almenn hækkun á útsvari í landinu og þar með almenn skattahækkun?

Í þriðja lagi, herra forseti: Hefur verið farið yfir það af hálfu ríkisstjórnarinnar hvort tekjuskipting ríkis og sveitarfélaga sé einfaldlega orðin röng miðað við verkefni sveitarfélaganna og aukna áherslu á þjónustu við fjölskylduna?