Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:14:53 (3140)

1999-02-02 14:14:53# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:14]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Hér er hreyft við mjög stóru máli sem reyndar var lítillega rætt fyrir jólaleyfi í tengslum við það að ákveðin sveitarfélög eins og Vestmannaeyjar og Reykjavík breyttu lítillega sinni útsvarsprósentu. Eins bar þetta á góma í umræðum um fjárlagafrv. Sá sem hér stendur a.m.k. reifaði þessa hluti þar.

[14:15]

Ég er þeirrar skoðunar að óhjákvæmilegt sé að taka fjármálaleg samskipti ríkisins og sveitarfélaganna til gagngerðrar endurskoðunar. Það er enginn vafi á því að flutningur grunnskólans og jafnvel fleiri verkefni sem þarna hafa verið að færast til á undanförnum árum hafa reynst sveitarfélögunum dýrari og þyngri í skauti en áætlanir stóðu til.

Eðli tekjustofna þessara aðila er ólíkt og það hefur þýtt að í eyðslu- eða þenslugóðæri af því tagi sem við höfum upplifað að undanförnu hagnast ríkissjóður umfram sveitarsjóðina. Ég held einnig, herra forseti, að fara eigi í þessi mál með það að leiðarljósi að sveitarfélögin verði að öðlast aukið tekjulegt sjálfstæði. Þessi samskipti, að ríkisvaldið skammti með prósentum eða ákvörðunum að ofan og bindi í raun hendur sveitarfélaganna að verlegu leyti, ganga ekki upp eigi verkefnatilflutningurinn að ná tilgangi sínum. Ég held að athuga þurfi að sveitarfélögin fái tekjustofna, t.d. tekjustofna tengda atvinnulífinu. Ég nefni þar sem möguleika hlutdeild í tryggingagjaldi og ég nefni umhverfisgjald af ýmsum toga sem ætti að mínu mati vel heima hjá sveitarfélögunum.

Ég vil að lokum, herra forseti, leyfa mér að leggja það til við hæstv. félmrh. í ljósi stöðu þessara mála og með tilliti til þess hvernig stendur á kjörtímabili, að hæstv. ráðherra skipi nefnd með fulltrúum ráðuneyta, sveitarfélaganna og allra þingflokka sem fái það verkefni að standa fyrir endurskoðun á tekjulegum samskiptum ríkis og sveitarfélaga og skila áliti um það mál á hausti komanda þannig að nýtt Alþingi á nýju kjörtímabili hafi grundvöll til að byggja á ákvarðanir um framtíðarsamskipti þessara aðila á þessu sviði.