Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:21:56 (3143)

1999-02-02 14:21:56# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:21]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Herra forseti. Tilflutningur grunnskólanna á hendur sveitarfélaganna hefur leitt til þess að sveitarfélögin hvert af öðru hafa kvartað yfir því að sá samningur sem þá var gerður hafi ekki skilað sveitarfélögunum nægilegu fjármagni. Sá ég það síðast fyrir örfáum dögum að sveitarstjóri í einu stóru sveitarfélagi talaði um að gefa yrði upp á nýtt og má íhuga það. Að vísu hefur sá hinn sami sveitarstjóri eða bæjarstjóri nú nýlega undirritað viljayfirlýsingu um að fá fleiri verkefni þannig að hann er ekki banginn. Það er önnur saga.

Það liggur í augum uppi að við þurfum að endurskoða tekjustofnalögin frá grunni. Ég hef ævinlega verið þeirrar skoðunar að við ættum sem mest að víkja frá skömmtunarstefnunni, víkja frá því að sveitarfélögin þurfi að sækja fjárframlög til ríkissjóðs heldur sé þeim gert kleift að afla fjár upp á eigin spýtur, með öðrum orðum hafa sjálfstæða sveigjanlega tekjustofna. Ég var til að mynda þeirrar skoðunar á sínum tíma, þó að ég hafi verið samþykkur afnámi aðstöðugjaldsins sem slíks, að það væri sumpart skref aftur á bak að sveitarfélög hefðu engan hag af því hvort mikil eða lítil atvinnustarfsemi væri í viðkomandi sveitarfélagi. Það er eitt atriða sem rétt er að skoða og tryggingagjaldið í því sambandi.

Enn fremur hef ég stundum velt því upp að ábyrgð sveitarstjórnarmanna eigi að vera svo mikil að engin sérstök þörf sé á að setja topp eða þak á útsvarsprósentu og að það sé pólitísk ábyrgð sveitarstjórnarmanna á hverjum stað að taka um það sjálfstæða ákvörðun. Jafnframt verðum við að gæta að jöfnuði og styrkja Jöfnunarsjóð sveitarfélaga. Það er mér meðvitað. En hér eru grafalvarleg mál á ferðinni vegna þess að við megum ekki láta þessa ágætu yfirfærslu sem var skynsamleg leiða til þess að menn verði hræddir, tortryggnir og hiki við þegar um næstu skref verður að ræða hvort sem þau verða á vettvangi málefna fatlaðra, heilsugæslunnar eða annarra málaflokka. Hér eru stór mál á ferðinni. Því fagna ég þeirri yfirlýsingu ráðherra að hann ætli að setja alvarlega vinnu í gang um heildarendurskoðun tekjustofnalaga.