Viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:29:09 (3146)

1999-02-02 14:29:09# 123. lþ. 57.97 fundur 222#B viðbrögð ríkisstjórnarinnar við fjárhagsvanda sveitarfélaganna# (umræður utan dagskrár), félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:29]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Hv. þm. Gísli S. Einarsson spurði um aðgerðir vegna sérástæðna í sveitarfélögum. Farið er yfir útkomu hvers sveitarfélags eða hvers skóla að ári loknu um útkomuna á grunnskólanum og leiðrétt vegna frávika miðað við gefnar forsendur. En það er engin sjálfsafgreiðsla á hverjum einstökum skóla. Það verða að vera rök fyrir því að einhver tilvik hafi komið upp sem séu afbrigðileg.

Ég er að skipa nefnd eins og ég sagði áðan til að endurskoða lögin um tekjustofna sveitarfélaga og stjórnarandstaðan fær aðild að þeirri nefnd. Það á að endurskoða grunnskólasamninginn árið 2000. Það er bundið í lögum.

Hv. þm. Einar K. Guðfinnsson nefndi herkostnað við töku sveitarfélaganna, þ.e. þeirra sveitarfélaga þar sem fólksfjölgunin er mest, og þar á ofan bætist við, sem betur fer, að fæðingartíðni er enn þá hærri hjá Íslendingum en hjá flestum öðrum vel megandi þjóðum. Mannfjöldaspá frá 1986 gerði ráð fyrir því að árið 2020 yrðu Íslendingar orðnir 276 þúsund og þeim mundi ekkert fjölga eftir það. Við erum orðnir 276 þúsund í dag, þurftum ekki að bíða þessi 20 ár sem þó var spáð fyrir 13 árum.

Það er rangt að sveitarfélögin hafi ekki fengið fullt meðlag með grunnskólanum. Þau hafa fengið með honum 1 milljarð til viðbótar við það sem um var samið. Hins vegar hefur kröfuharka kennara í sumum tilfellum keyrt um þverbak. Þó eru þeir búnir að fá upp í 43% hækkun meðan ASÍ er með innan við 20%. Kröfuharkan hefur náttúrlega keyrt um þverbak og sveitarfélögunum er skapaður vandi með fjöldauppsögnum.

Síðan vil ég nefna það sem kannski hefur farið fram hjá hv. málshefjanda að í sveitarstjórnarlögunum sem samþykkt voru í vor með miklum umræðum er lagt bann við að sveitarfélög gangi í ábyrgð fyrir þriðja aðila. (Gripið fram í: ... Þau setja peninga í hlutafélög.)