Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 14:32:26 (3147)

1999-02-02 14:32:26# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., umhvrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[14:32]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á skipulags- og byggingarlögum, nr. 73/1997, samanber lög nr. 135/1997, sem flutt er á þskj. 475 og er mál nr. 352.

Frv. þetta er unnið í umhvrn. í samráði við félmrn. Á undanförnum mánuðum hefur átt sér stað mikil umræða um skipulag miðhálendisins, einkum það hvaða aðilar eigi að koma að skipulagi þess. Um það fjallar þetta frv. fyrst og fremst. Sérstök samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins var skipuð í lok árs 1993 samkvæmt lögum nr. 73/1993, um breytingu á skipulagslögum, nr. 19/1964. Í þeirri nefnd áttu sæti 13 fulltrúar og voru 12 þeirra fulltrúar þeirra héraðsnefnda sem áttu stjórnsýslu inn til miðhálendisins en ráðherra skipaði formann nefndarinnar.

Hlutverk nefndarinnar var að skila tillögum um skipulag miðhálendisins eins og það var skýrt í áðurnefndum lögum sem hún og gerði í nóvember sl. og eru þær nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun lögum samkvæmt. Þar með hefur samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins í raun lokið störfum sínum.

Megintilgangurinn með frv. þessu er að mæta fram kominni gagnrýni á það hverjir hafi með skipulagsmál á hálendinu að gera. Því er gert ráð fyrir að ný nefnd, samvinnunefnd miðhálendisins, komi í stað samvinnunefndar um svæðisskipulag miðhálendisins og verði hún skipuð fulltrúum bæði þeirra kjördæma sem eiga land að miðhálendinu sem og annarra kjördæma. Þannig eiga önnur sveitarfélög, þ.e. á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Vestfjörðum, fulltrúa í nefndinni enda er miðhálendið að stórum hluta ekki í einstaklingseign heldur þjóðlendur sem skipta alla landsmenn máli.

Í athugasemdum með frv. er gerð grein fyrir forsögunni, frv. því sem lagt var fram í fyrra og vísa ég nánar til þess sem þar kemur fram. Það frv. sem ég legg hér fram er að miklu leyti samhljóða frv. sem lagt var fram á Alþingi í vor. Sú breyting sem orðið hefur á frv. frá þeim tíma varðar einkum 2. mgr. 2. gr. þar sem fjallað er um samsetningu og tilnefningu í nefnd um skipulag miðhálendisins. Samkvæmt frv. þessu er lagt til að sú nefnd beri heitið samvinnunefnd miðhálendisins. Talið er æskilegt að láta nefndina fá nýtt nafn til aðgreiningar frá þeirri nefnd sem áður hefur starfað, samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins, enda er hér um að ræða nýja nefnd með aðra samsetningu og sem er ætlað að starfa til frambúðar.

Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að fulltrúar í nefndinni verði 11 í stað 13 sem voru í fyrri nefndinni eins og áður hefur komið fram og í stað 18 sem ráðgert var í frv. frá því í fyrra. Skal ráðherra velja níu án tilnefningar, þar af formann nefndarinnar, en átta skal ráðherra velja úr öllum kjördæmum landsins í samráði við Samband ísl. sveitarfélaga. Auk þess tilnefnir félmrh., sem fer með yfirstjórn sveitarstjórnarmála, einn og samtök um útivist einn en talið er nauðsynlegt að þessir aðilar geti komið sjónarmiðum sínum að sem fyrst, enda búa þeir yfir mikilli þekkingu á þessu sviði.

Ég mun þá rekja önnur efnisatriði frv. Þar er fyrst að nefna að lagt er til að gerð verði breyting á 12. gr. skipulags- og byggingarlaga þar sem fjallað er um samvinnunefnd um gerð svæðisskipulags. Gerð er tillaga um að í ákvæðinu sé vísað til 12. gr. a þar sem fjallað er um samvinnunefnd miðhálendisins. Breytingin er lögð til svo að skýrt sé að aðrar samvinnunefndir um gerð svæðisskipulags hafi ekki það hlutverk að fjalla um þau verkefni sem samvinnunefnd miðhálendisins er falið og þannig sé ekki um að ræða skörun á verksviði þessara tveggja nefnda.

Í öðru lagi er lögð til breyting á 17. gr. laganna sem fjallar um kynningu á aðalskipulagstillögum en samkvæmt því ákvæði í gildandi lögum skal tillaga að aðalskipulagi eða veruleg breyting á því kynnt á almennum fundi eða á annan fullnægjandi hátt og skal kynningin auglýst á áberandi hátt. Einnig eiga tillögur að vera kynntar sveitarstjórnum aðliggjandi sveitarfélaga. Hér er á hinn bóginn lagt til að aðalskipulagstillagan sem nær til miðhálendisins skuli auk ofangreindrar kynningar vera auglýst í Lögbirtingablaðinu og liggja frammi hjá Skipulagsstofnun. Þetta er gert til þess að ekki aðeins íbúar hlutaðeigandi sveitarfélags og sveitarstjórnir aðliggjandi sveitarfélaga geti komið að athugasemdum þegar aðalskipulagstillaga sem snertir miðhálendið er til kynningar heldur hafi í raun allir landsmenn þennan möguleika.

Að lokum er lagt til að við ákvæði til bráðabirgða verði bætt nýju ákvæði þar sem gerð er sú tillaga að Skipulagsstofnun leiti álits samvinnunefndar miðhálendisins, þeirrar nýju ef frv. verður lögfest, áður en stofnunin gerir tillögu til ráðherra um lokaafgreiðslu fyrirliggjandi tillagna um svæðisskipulag miðhálendisins. Þannig er gert ráð fyrir að samvinnunefnd miðhálendisins, sem lagt er til að lögfest verði með frv. þessu, fái tækifæri til að fjalla um tillögu að svæðisskipulagi miðhálendisins sem nú liggur fyrir hjá Skipulagsstofnun.

Samvinnunefnd miðhálendisins fengi það sem sitt fyrsta verkefni að gefa umsögn um fyrirliggjandi tillögu. Samkvæmt frv. þessu, sem lagt var fyrir Alþingi í desember á síðasta ári og gerði ráð fyrir gildistöku laganna um nýliðin áramót, er gert ráð fyrir að umsögn samvinnunefndar miðhálendisins muni liggja fyrir eigi síðar en 1. febrúar 1999, þ.e. í gær. Þar sem ekki tókst að mæla fyrir frv. fyrir þinghlé Alþingis í desember legg ég til að frv. verði breytt og er reyndar nauðsynlegt að breyta því í meðförum umhvn. hvað varðar gildistökuákvæðið og þann tímafrest sem nefndinni er ætlaður. Það ræðst auðvitað nokkuð af því hversu fljótt hv. Alþingi telur fært að lögfesta frv. en miðað er við það að ráðherra skipi samvinnunefnd miðhálendisins strax og frv. er orðið að lögum. Nefndin þarf síðan einhvern tíma að skoða fyrirliggjandi tillögu, þrjár til fjórar vikur e.t.v. eins og gert er ráð fyrir í frv. sem hér er til umræðu hefðu tímasetningarnar þar staðist, en endanleg dagsetning, sem gæti þá verið hugsanlega í aprílbyrjun eða um miðjan apríl, verður hins vegar að ráðast af því hversu fljótt hv. Alþingi lögfestir frv.

Hæstv. forseti. Ég hef farið yfir þær breytingar sem koma fram í frv. þessu. Þar sem frv. gerir ráð fyrir að ný nefnd, samvinnunefnd miðhálendisins, taki við af samvinnunefnd um svæðisskipulag miðhálendisins sem þegar hefur lokið störfum er afar brýnt að frv. þetta nái fram að ganga sem allra fyrst, enda er lagt til að hin nýja nefnd gefi umsögn um fyrirliggjandi tillögur að svæðisskipulagi miðhálendisins eins og ég hef áður gert grein fyrir.

Að sjálfsögðu væri hægt að fara fleiri orðum um aðdraganda málsins og tilurð frv. en ég tel ekki ástæðu til þess. Það er hv. þm. allt vel ljóst, m.a. vegna ítarlegar umfjöllunar um málið á Alþingi sl. vor. Ég vænti þess á hinn bóginn að frv. þetta eigi vísan stuðning meðal hv. þm. og samstaða sé um að koma þessu fyrirkomulagi á hvað varðar skipulagsmál miðhálendisins. Ég leyfi mér því að leggja til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og til umfjöllunar í hv. umhvn.