Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:13:28 (3150)

1999-02-02 15:13:28# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:13]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ræða hv. síðasta þingmanns fól í sér mjög skilyrðislítinn stuðning við þetta frv. Hv. þm. fagnar því sér í lagi í lokum ræðu sinnar að frv. hafi komið fram og segir mjög brýnt að það fari í gegn. Ég get ekki skilið ræðu hv. þm. öðruvísi en svo að hún sé sammála meginefni tillögunnar. Hún gerði lítið úr því þó ágreiningur kynni að verða uppi um skipan í nefndina, þarna væru 11 manns og það kynnu að vera skiptar skoðanir á því. En hún virtist í grundvallaratriðum sammála þessu. Það kemur mér talsvert á óvart, sér í lagi vegna þess að hv. þm. rifjar það upp að gríðarleg vakning hefur orðið varðandi hálendið. Hvar hefur sú vakning fyrst og fremst orðið? Hún hefur orðið hér á þéttbýlissvæðunum þar sem 67% þjóðarinnar búa í tveimur kjördæmum. Samkvæmt þeirri tillögu sem hv. þm. fagnar svona þá eiga þessi 67% að hafa tvo fulltrúa af 11 og allir fulltrúarnir 11 eiga að vera skipaðir af ráðherrum, eiga að vera skipaðir af ráðherrum sem núna eru í sama stjórnmálaflokki. Ég segi fyrir sjálfan mig að mér þykir þetta gríðarlegur galli á nefndinni.

Ég tek líka undir það sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði áðan að það er vægast sagt loðið hvernig tilnefning t.d. Sambands íslenskra sveitarfélaga á að fara fram. Þess vegna spyr ég hv. þm. hvort henni finnist ekki að hagsmunir þess kjördæmis sem hún er fulltrúi fyrir séu fyrir borð bornir og hvort hún sé virkilega komin í þá pólitísku stöðu að henni finnist það allt í lagi að ráðherrarnir skipi alla 11 fulltrúana. Finnst henni líka í lagi að þarna sé loðið orðalag um að fulltrúar útvistarsamtaka fái einn fulltrúa af 11 og finnst henni í lagi að náttúruverndarsamtök, sem er ekki beinlínis hægt að fella undir útivistarsamtök, hafi engan fulltrúa?