Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:16:48 (3152)

1999-02-02 15:16:48# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:16]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Það er ekki fyllilega rétt hjá hv. þm. að fulltrúar Reykjavíkur og Reyknesinga hafi ekki átt setu í nefndinni samkvæmt fyrra frumvarpinu. Frv. sem lagt var fram í fyrra var þannig að Samband íslenskra sveitarfélaga átti að tilnefna fjóra fulltrúa, tveir áttu að vera búsettir í Reykjavík og einn á Reykjanesi. Munurinn er ekki svo ýkja mikill. Okkur þótti það allt of rýr hlutur í fyrra. Þar voru að vísu þrír af átján, hérna eru þeir tveir af ellefu. Hver er munurinn? Staðan er hlutfallslega verri.

Ég fagna auðvitað því að hv. þm. segir að hún mundi fylgja tillögu sem gengi lengra. Ég fagna því. Þá finnst mér líka að hv. þm. ætti ekki, þrátt fyrir mikilvægi málsins, að lýsa yfir fögnuði með tillöguna eins og hún liggur fyrir meðan hún fellst á að tillagan gangi ekki nógu langt.

Ég er sammála hv. þm. um að málið þurfi að leiða farsællega til lykta, en ég held að þingið megi ekki fyrir fram afsala sér réttinum til að gera róttækar breytingar á þessu. Ég held það þurfi að skoða þetta verulega vandlega. Til að mynda tel ég að með tilliti til þeirra átaka sem hafa verið milli mismunandi sjónarmiða varðandi hálendið og mér þykir kristallast að nokkru í átökum milli landsbyggðar og þéttbýlis, það eru klárlega mismunandi viðhorf, sé nauðsynlegt að reyna að ryðja brautina fyrir raddir þeirra sem hafa verið að tala máli náttúruverndar. Mér finnst það fráleitt tryggt hérna. Svo er alls ekki á meðan hver einasti fulltrúi er skipaður án tilnefningar af ráðherrum ríkisstjórnarinnar. Það er í rauninni enginn, ekki einu sinni Samband íslenskra sveitarfélaga, sem hefur lögskipaðan rétt annan en að hafa skuli samráð við þá. Við vitum hins vegar bæði, herra forseti, ég og hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir, hvað hægt er að teygja og túlka orðið samráð.