Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:31:49 (3155)

1999-02-02 15:31:49# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:31]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég fagna framlagningu þessa frv. enda nauðsynlegt að það kæmi fram og nauðsynlegt að það fái afgreiðslu í ljósi þeirrar umræðu sem hér fór fram í þinginu á vordögum í reyndar mjög löngu máli.

Frv. gengur út á það að breyta heimild sem ráðherra hefur í 12. gr. skipulags- og byggingarlaga, reyndar er réttara að orða það þannig að verið er að útfæra frekar heimild sem er í 12. gr. (Gripið fram í: Hver átti þessa hugmynd?) yfir á það að gera ráðherra skylt að skipa sérstaka svæðisskipulagsnefnd fyrir miðhálendið. Sú hugmynd sem hér kemur fram er mér mjög að skapi. Hún tryggir aðkomu íbúa allra kjördæma landsins, hún tryggir tengsl við sveitarstjórnarstigið, sem að öllu jöfnu fer með skipulagsmálin, og hún gerir möguleg og reyndar tryggir tengsl við þá sem nýta og njóta hálendisins og að sjónarmið þeirra komist að borðinu þegar þessi mál eru rædd.

Eins og komið hefur fram í umræðunni er þetta auðvitað flókið mál. Það eru margir og ríkir hagsmunir og mjög mörg sjónarmið sem koma fram þegar hálendið er skipulagt. Ég hef í nokkuð langan tíma velt þessum málum mikið fyrir mér og hvernig hægt væri að leysa þau með einfaldri formúlu um það hverja ætti að tilnefna eða skipa í nefnd. En hagsmunirnir eru einfaldlega svo margir og sjónarmiðin svo mörg að ekki er hægt á auðveldan hátt að taka tillit til þeirra allra. Þess vegna tel ég að nauðsynlegt hafi verið að finna lausn sem er á þessum nótum og gera það þannig að fulltrúi sem skipaður er í nefndina geti verið fulltrúi fyrir fleiri en eitt og jafnvel fleiri en tvö sjónarmið. Við megum ekki alltaf gera ráð fyrir því að menn hafi ekki möguleika til þess að hugsa út frá nema einu sjónarmiði á hverjum tíma. Í þeirri formúlu sem hér er hefur ráðherrann mikla möguleika til að gæta þess að öll sjónarmið og allir hagsmunir eigi að geta komið að því að skipuleggja hálendið.

Það eitt út af fyrir sig að fækka úr 18 í 11 gerir það að verkum að vinna nefndarinnar verður miklu auðveldari og ef við gerum ráð fyrir því að svo hæfir einstaklingar finnist í þjóðfélaginu að þeir geti tekið tillit til fleiri en eins sjónarmiðs þá á þessi nefnd að geta unnið farsællega úr þeim sjónarmiðum og hagsmunum sem hér um ræðir.

Hv. þm. Hjörleifur Guttormsson sagði að tilvist aðalskipulagsins og hvernig aðalskipulagið tengist svæðisskipulaginu og þá sérstaklega hvernig það tengist svæðisskipulaginu á miðhálendinu gerði málið enn þá flóknara. Það má að vissu leyti til sanns vegar færa en það gerir málið líka að vissu leyti einfaldara. Það undirstrikar einn þann helsta kost sem ég tel vera við þessa tillögu en hann er sá að málið er á forræði umhvrh. Og umhvrh. ber ekki ábyrgð gagnvart einhverjum einum hagsmunahópi, einu sjónarmiði eða einu kjördæmi heldur ber hann ábyrgð gagnvart heildinni, gagnvart þjóðinni allri. Hann fer með þennan málaflokk í umboði þjóðarinnar allrar.

Það er einmitt tilfellið með aðalskipulagið og svæðisskipulagið og líka með sérstaka svæðisskipulagið, sem hv. þm. Hjörleifur Guttormsson minntist á, að ráðherra þarf að staðfesta öll þessi skipulög. Það á því ekki að þurfa að fara fram hjá neinum sem um þau fjallar að þau eiga að vera samkvæmt lögunum í innbyrðis samræmi. Sá ráðherra sem staðfestir aðalskipulag og svæðisskipulag eða sérstakt svæðisskipulag sem ekki eru í samræmi hvort við annað er ekki að uppfylla lögin um að skipulagsstigin skuli vera í innbyrðis samræmi. En það er ráðherra sem er endanlegi staðfestingaraðilinn í þessum efnum.

Ég tel því að með þessari breytingu og með þeim greinum sem að öðru leyti fjalla um forræði ráðherrans og innbyrðis samræmi skipulagsstiganna sé það tryggt að öll sjónarmið og allir hagsmunir eigi að geta komið að því að skipuleggja miðhálendið en þó allt undir forræði umhvrh. í þessum efnum, sem er fyrir hönd allrar þjóðarinnar en ekki fyrir hönd einstakra hagsmuna eða einstakra sjónarmiða.