Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 15:56:59 (3158)

1999-02-02 15:56:59# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[15:56]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Ég gleðst yfir því að hv. þm. tekur að hluta til undir þau viðhorf sem ég hef gagnvart kynningu á skipulagstillögum sem varða miðhálendið. Sem þegn þessa ríkis get ég hins vegar ekki haft áhrif á tillögur nema ég viti að þær hafi komið fram. Ég legg því áherslu á að allar skipulagstillögur varðandi miðhálendið verði kynntar þannig að ég geti haft aðgang að þeim og viti að þær séu fram komnar eða komnar í eindaga varðandi athugasemdir.

Hins vegar er rangt hjá hv. þm. að ég hafi talað máli sérhagsmunahópa og vilji að fulltrúar þeirra eigi sæti í þessari nefnd. Ég lít ekki á náttúruverndarsamtök sem sérhagsmunahópa, það er bara fjarri því. Ég lít svo á að þar sé um heildarhagsmunahóp að ræða. Ég lít svo á að fulltrúi útivistarsamtaka sé ekki fulltrúi sérhagsmunahópa. Hann er fulltrúi okkar, fólksins sem nýtir miðhálendið til útivistar.

Herra forseti. Ég vísa því algerlega á bug athugasemd hv. þm. Árna M. Mathiesen um þetta. Ég gæti fallist á það til samkomulags að þetta yrði til helminga, að þarna væri 16 manna nefnd þar sem átta fulltrúar kjördæmanna og fjórir fulltrúar náttúruverndarsamtaka og fjórir fulltrúar útivistarsamtaka. Það væri skipting sem ég gæti fallist á og tillaga um það mun væntanlega koma fram á einhverju stigi þessa máls.

Að öðru leyti er ég hissa á því, herra forseti, að hv. þm. Árni M. Mathiesen, sem verður væntanlega 1. þm. Reykn., skuli láta bjóða sér og kjósendum sínum í þessu næstfjölmennasta kjördæmi landsins aðeins einn fulltrúa til að vernda hagsmuni sem klárlega kom fram í fyrra að fólkið, kjósendur þessa hv. þm., vilja að séu verndaðir betur en núverandi ríkisstjórn hefur gert.