Skipulags- og byggingarlög

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:01:32 (3160)

1999-02-02 16:01:32# 123. lþ. 57.2 fundur 352. mál: #A skipulags- og byggingarlög# (skipulag miðhálendisins) frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:01]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. er a.m.k. sammála mér um að nauðsynlegt sé að menn hafi aðgang að því að koma athugasemdum að. En hann hlýtur að vera mér sammála um að til þess að það sé hægt þá þurfi menn að vita af tilvist viðkomandi tillagna.

Í fyrra frv. var ákvæði um að auglýsa ætti tillögur rækilega, að vísu bara svæðisskipulagstillögur, held ég. En ég er að segja að ég held að inn í lögin eigi að koma skilyrðislaust og fortakslaust ákvæði um að koma eigi kynningarmálum í þann farveg að t.d. einhver Reykvíkingur geti gengið að því á vísum stað og vitað af því að í gangi sé jafnvel skipulag á hinum smæstu skipulagseiningum eða -stigum.

Ég er hins vegar, herra forseti, ekki sammála hv. þm. um að kjósendur hans muni sætta sig svo greiðlega við þessa tillögu. Ég held að hann ætti að fara út á akurinn og kanna hljóðið, finna ilminn úr grasinu. Ég held að hann fyndi þá að viðhorfin eru önnur en þau voru í fyrra, m.a. vegna þess að menn hafa vaknað upp við vondan draum þar sem er atlaga þessarar ríkisstjórnar að miðhálendinu í ýmsum formum og gerðum.

Ég spyr hins vegar hv. þm., sem gaf sér ekki tíma til að kynna viðhorf sín til hugmyndar minnar um hvernig væri hægt að fallast á skipan þessarar nefndar. Ég sagði að fyrir mitt leyti gæti ég fallist á nefnd sem væri 16 manns þar sem væru fulltrúar átta kjördæma og síðan væru fjórir fulltrúar útivistarsamtaka og fjórir fulltrúar náttúruverndarasamtaka. Er hv. þm. tilbúinn til að velta fyrir sér einhvers konar breytingu sem varðar þetta, breytingu sem mundi gera rödd þeirra sem vilja vernda náttúruna og vilja nota hana með öðrum hætti en t.d. ríkisstjórnin virðist vilja, gera hana sterkari?

Hv. þm. er búinn með sinn ræðutíma, en hann er ræðuskörungur og hann getur haldið hér fleiri ræður í dag. Hann er ekki búinn með allan þann rétt sinn. Það væri mjög fróðlegt að heyra viðhorf hugmyndafræðingsins á bak við þetta frv. til nákvæmlega þessa atriðis.