Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:34:12 (3168)

1999-02-02 16:34:12# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:34]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir till. til þál. um viðræður við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Þetta er 9. mál þingsins og er á þskj. 9.

Flutningsmenn ásamt mér eru hv. þm. Kristín Halldórsdóttir og Ragnar Arnalds. Tillgr. er svohljóðandi:

,,Alþingi ályktar að kjósa nefnd skipaða fulltrúum allra þingflokka undir forustu formanns, sem utanríkisráðherra skipar án tilnefningar, til að ganga til viðræðna við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar. Stefnt skal að niðurstöðu áður en gildandi samkomulag við bandarísk stjórnvöld um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli rennur út. Nefndin skal að undangenginni athugun og könnunarviðræðum við bandarísk stjórnvöld skila áfangaskýrslu til Alþingis eigi síðar en í árslok 1999 þannig að tími gefist til samninga um málið áður en uppsagnarákvæði núgildandi bókunar um umfang starfseminnar á Keflavíkurflugvelli verður virkt eða rennur út.``

Herra forseti. Það er kunnara en frá þurfi að segja að bandarísk stjórnvöld hafa með ýmsum hætti á undanförnum árum sýnt áhuga sinn á því að draga úr umfangi rekstrar í herstöðinni í Keflavík og þetta hefur reyndar að nokkru leyti komið til framkvæmda. Samdrátturinn er umtalsverður og má í því sambandi vísa í fylgiskjal IV. með þáltill. þessari þar sem fram koma upplýsingar um fjölda hermanna og fjölda óbreyttra borgaralegra starfsmanna á vegum varnarliðsins. Í báðum tilvikum er um umtalsverða fækkun á síðustu 6--8 árum að ræða.

Í reynd er það þannig, herra forseti, að eins og málið hafa þróast þá hafa það fremur verið íslensk yfirvöld utanríkismála en bandarísk sem þrýst hafa á um að hér væru tiltekin umsvif. Þannig liggur það fyrir að í viðræðum íslenskra stjórnvalda við bandarísk í aðdraganda að núgildandi og reyndar einnig síðastgildandi samkomulagi eða bókunum um umsvifin hér, þá voru það Íslendingar sem fóru fram á t.d. áframhaldandi staðsetningu orrustuflugvéla hér á landi. Staðsetningu orrustuflugvélanna tengist ýmis annar viðbúnaður, svo sem björgunarsveitin og fleira og umfang umsvifanna ræðst því að þó nokkru leyti af því hvort hér er að staðaldri staðsett orrustuflugsveit eða ekki.

Þessi þróun er að sjálfsögðu tengd aðstæðum í alþjóðastjórnmálum og öryggismálum í okkar heimshluta og alþjóðlega og því ber að fagna að áhugi er nú á því að draga úr vígbúnaði og þeim miklu útgjöldum sem honum eru samfara. Hið dapurlega er hins vegar ef það verða örlög okkar Íslendinga að gangast sjálfir fyrir því að hér verði erlendur her í landinu, jafnvel þegar forsvarsmenn þess hins sama erlenda hers eru tilbúnir til eða vilja beinlínis draga hann í burtu. Mér finnst það ekki rismikill metnaður, herra forseti, fyrir hönd okkar að setja hlutina í þær stellingar, hvaða orð sem menn kunna svo sem um það að hafa og sendiferðir íslenskra ráðamanna vestur til Washington í þessu sambandi. Mætti í því sambandi t.d. vitna í nýlega útgefna ævisögu fyrrv. formanns Framsfl. og fyrrv. forsrh. og utanrrh., Steingríms Hermannssonar, en hann hefur um þetta nokkur orð í nýútkominni bók, fyrra bindi endurminninga nefnds manns.

Að mínu mati, herra forseti, er nokkuð ljóst af því sem hér hefur verið sagt og af öllum aðstæðum sem fyrir liggja í þessu máli að verulegar líkur eru á því að ná mætti um það samkomulagi sem báðir aðilar ættu að geta unað vel við að erlendur her og beinn vígbúnaður eða viðbúnaður af vígbúnaðartagi hyrfi héðan úr landi en einhver tiltekin aðstaða yrði e.t.v. eftir og höfð tiltæk samkvæmt nánara samkomulagi. Þetta byggist þó að sjálfsögðu á því að til þess standi vilji íslenskra stjórnvalda að svo verði.

Herra forseti. Um áratuga skeið hefur afstaðan til veru erlends hers í Keflavík verið eitt stærsta deilumál sem hér hefur verið uppi í þjóðmálum og í raun lengst af skipt þjóðinni í tvær fylkingar. Löngum voru þær svipaðar að stærð. Um það vitna bæði kosningar og skoðanakannanir og má færa fleiri rök fyrir því.

Lengst af var það svo að í þessum deilum öllum og samkvæmt formlegri og yfirlýstri stefnu íslenskra stjórnmálaflokka var um það samstaða a.m.k. í orði kveðnu að hér skyldi ekki vera erlendur her á friðartímum. Það var stefna þeirra flokka sem stóðu að því að hann kom á sínum tíma og yfirlýst að vilji væri til þess að hann hyrfi úr landi á nýjan leik eða væri ekki hér á friðartímum. Þessir friðartímar, herra forseti, hafa hins vegar látið á sér standa og stundum var það svo að jafnvel átök í fjarlægum heimsálfum voru notuð til þess að réttlæta það að hér þyrfti að vera erlendur her.

Nú hlýtur hins vegar, herra forseti, að teljast erfitt að halda öðru fram en að uppi séu friðartímar eða friðvænlegar horfi a.m.k. í okkar heimshluta en áður gerði eftir að þeirri spennu sem fylgdi vígbúnaðarkapphlaupi stórveldanna á kaldastríðstímanum er lokið. Ég held að því megi segja, herra forseti, að óumdeilanlega hafi skapast þær aðstæður að unnt ætti að vera að ná sáttum með þjóðinni í þessu viðkvæma og langstæða deilumáli. Það hlyti að mínu mati að teljast gleðilegt, herra forseti, ef slíku mætti ná. Ég segi það fyrir mitt leyti að vil ég leggja mitt af mörkum til þess að slík sátt geti náðst og geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að til þess getur þurft einhverja málamiðlanir, að menn mætist einhvers staðar á þeirri leið. Það sem mér finnst blasa við í þeim efnum er það sem hér er lagt til, að góður grundvöllur eigi að geta verið til samkomulags og sátta um þetta mál að erlendur her hverfi úr landinu sem slíkur og beinn vígbúnaður verði ekki hér til staðar. Við getum þar af leiðandi með réttu og í sann staðið undir því að vera vopnlaus smáþjóð og þurfum ekki að lúta þeirri niðurlægingu að hafa erlenda hermenn í okkar landi sem flestum öðrum þjóðum a.m.k. þykir ekki æskilegt, hvernig sem Íslendingum er farið, en gæti eftir sem áður orðið með einhverjum hætti hluti af því skipulagi öryggisgæslu eða viðbúnaði og skipulagi sem væri við lýði í okkar heimshluta. Ég hef að vísu mínar meiningar um það að sjálfsögðu, herra forseti, en reikna kannski ekki með að á allt yrði fallist í þeim efnum sem ég tala fyrir en teldi það stórfelldan árangur og mikilvægan áfanga ef því takmarki yrði náð að um beina erlenda hersetu yrði ekki að ræða.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar, herra forseti, og skýt því inn og er ekki einn um þá skoðun heldur deili henni með vaxandi fjölda þeirra sem um þessi mál fjalla, t.d. á alþjóðavettvangi, að það sé sú skipan mála sem beri að stefna að í alþjóðasamfélaginu yfirleitt, þ.e. að grundvallarreglan verði sú að engin þjóð haldi her í landi annarrar, slíkur viðbúnaður sé eingöngu innan landamæra hvers ríkis fyrir sig.

Hins vegar er það ljóst, herra forseti, að hin langa herseta hefur markað margvísleg spor, bæði efnahagsleg og hvað varðar atvinnu og hagsmuni á viðkomandi svæðum og þar af leiðandi er alveg ljóst að um það þarf að takast sæmilegt samkomulag hvernig staðið verður að --- eins og ég vil leyfa mér að orða það því ég trúi því að þessar breytingar verði fyrr eða síðar --- þeim breytingum sem fylgja brotthvarfi hersins af Miðnesheiðinni. Ég held að það sé augljóst mál að báðir aðilar, þ.e. íslensk stjórnvöld og bandarísk hermálayfirvöld og bandarísk stjórnvöld bera mikla ábyrgð á þeim aðstæðum sem þarna eru fyrir hendi og þurfa að leggja sitt af mörkum til þess að þær breytingar geti gengið fyrir sig þannig að sem minnst röskun hljótist af.

Herra forseti. Með vísan til þess að núgildandi samkomulag, bókun milli íslenskra og bandarískra stjórnvalda, rennur út í aprílmánuði árið 2001 og er reyndar með uppsagnar\-ákvæði ári fyrr, þ.e. í apríl á næsta ári, árið 2000, er að mínu mati tímabært, og þó fyrr hefði verið, að hefja formlegar viðræður við bandarísk stjórnvöld um það sem við tekur og það á að vera eins og hér er lagt til með hvaða hætti erlendur her og eiginlegur vígbúnaður getur horfið úr landi. Það þarf að sjálfsögðu að gera áætlun um átak til atvinnuuppbyggingar og þróunar fyrir svæðið samhliða því sem unnið er að samkomulagi við Bandaríkjamenn um hvernig þessar breytingar fara fram og hvernig sú aðstaða, húsakostur og annað slíkt sem þarna er til staðar nýtist í þessu sambandi. Það er enginn vafi á því að í tengslum við alþjóðaflugvöllinn er slík aðstaða nýtanleg á ýmsan hátt og miklir möguleikar á því að unnt sé að standa þannig að þessum breytingum að af því hljótist ekki veruleg röskun fyrir byggð á viðkomandi svæði. Það hefur árað betur í atvinnumálum á Suðurnesjum sem betur fer á síðustu árum. Þar var fyrir nokkrum árum eitt mesta atvinnuleysi á landinu en nú er því öfugt farið. Þvert á móti hefur atvinnulíf verið að blómgast á Suðurnesjum og er nú minna atvinnuleysi þar en víða annars staðar og er ástæða til að ætla að með aðgerðum af því tagi sem hér er fjallað um megi halda áfram að styrkja þá þróun.

[16:45]

Rétt er að hafa í huga að umtalsverður fjöldi íbúa af höfuðborgarsvæðinu stundar vinnu á Suðurnesjum. Þessir hagsmunir dreifast þannig á stærra svæði og eru ekki eingöngu bundnir við Suðurnesin. Með tilteknum tilflutningi fólks í störfum og ákveðnu aðlögunartímabili ætti að vera hægt að standa þannig að þessum málum að ekki yrði af því mikil röskun. Enda eru hér á ferðinni, herra forseti, ekki stærri tölur en við sjáum víða annars staðar í þjóðarbúskap okkar. Í því sambandi minni ég á að tekjur af varnarliðsviðskiptunum eða gjaldeyristekjur afleiddar af veru varnarliðsins hér hafa farið hratt minnkandi á síðustu árum. Þær voru á bilinu 2,5% upp í rúm 3% af vergri landsframleiðslu á ákveðnu árabili þegar mestar fjárfestingar og framkvæmdir voru á þessu svæði en eru nú 1--2%. Ég hef ekki nákvæmar tölur yfir allra síðustu ár en á árinu 1995 hafði þessi tala á fáeinum árum fallið úr um 3% eins og hún var á fyrri hluta 9. áratugarins niður í 1,9% á árinu 1995. Hún hefur síðan haldið áfram að lækka. Því valda auknar þjóðartekjur og vaxandi mikilvægi atvinnugreina eins og ferðaþjónustu í gjaldeyrisöflun o.s.frv.

Herra forseti. Ég leyfi mér að leggja til, með hliðsjón af mikilvægi málsins og því hve mikið væri í húfi ef ná mætti samstöðu um meðferð þessara mála í innlendum stjórnmálum, að í þetta verkefni verði skipuð þverpólitísk nefnd undir forsæti utanrrn. Hún mundi hafa það verkefni með höndum að fara í þessar viðræður og taka á þessu máli. Samhliða þessu, í framhaldi af samkomulagi um brottför erlends hers úr landinu, skapast gerbreyttar aðstæður til að móta sjálfstæða íslenska utanríkis- og friðarstefnu, stefnu sem grundvallast á vopnleysi, friðlýsingu og sjálfstæðri, óháðri stöðu landsins utan hernaðarbandalaga sem aflað yrði alþjóðlegrar viðurkenningar. Ég nefni sem fordæmi í því sambandi fyrirkomulagið á sjálfstjórnarsvæðinu á Álandseyjum, þá samstöðu sem þar ríkir um vopnleysi og friðarstefnu ásamt uppbyggingu friðarstofnunar Álandseyja. Þar er að mínu mati á ferðinni mjög áhugavert fordæmi sem aðrar smáþjóðir geta litið til.

Ég leyfi mér að vona, herra forseti, með hliðsjón af nálægð komandi alþingiskosninga, að í þessari umræðu fáum við að heyra viðbrögð ekki bara hæstv. utanrrh. sem heiðrar okkur með nærveru sinni heldur einnig í talsmönnum annarra flokka eða væntanlegra framboða. Mér finnst skipta máli að við þau tímamót sem fram undan eru, samanber tímabundinn gildistíma samkomulags um þessa hluti, liggi afstaða manna nokkuð ljós fyrir í þessum efnum. Ljóst þarf að vera hvort vilji er til þess og möguleiki á því að ná um þessi mál samstöðu eins og ég hef kallað eftir. Það væri dapurlegt, herra forseti, á tímum sem bjóða upp á að dregið sé úr vígbúnaði og trú á friðvænlegri framtíð eykst, ef við sætum uppi með að biðja sjálf um áframhaldandi hersetu og vígbúnað í landi okkar.

Að lokinni umræðu, herra forseti, leyfi ég mér svo að leggja til að tillögunni verði vísað til síðari umr. og hv. utanrmn.