Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 16:55:47 (3170)

1999-02-02 16:55:47# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., ÁMM
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[16:55]

Árni M. Mathiesen:

Herra forseti. Ég vil í upphafi taka fram að hv. þm. Tómas Ingi Olrich átti ekki heimangengt að norðan í dag til þess að taka þátt í þessari umræðu.

Hins vegar er athyglisvert fyrir okkur í dag á vettvangi stjórnmálanna að sjá hvernig andstæðingar NATO eru enn við sama heygarðshornið. Þeir flytja enn tillögur og tala fyrir því að varnarliðið hverfi úr landi og Íslandi segi sig úr NATO. Nú er það í því skálkaskjóli að endurskoðun og endurskipulagning innan NATO og hjá Bandaríkjaher hafi leitt í ljós að vera varnarliðsins sé ekki nauðsynleg. Þetta er fráleitt eins og komið hefur fram í umræðunni.

Þeir tímar sem við nú lifum eru okkur sennilega öruggari en síðustu áratugir hafa verið en þó eru enn róstur víða í heiminum og víða í Evrópu. Þess vegna stendur NATO, sem eina heildstæða öryggisstofnunin, frammi fyrir nýjum verkefnum. Henni er ætlað það hlutverk að tryggja jafnvægi í heiminum. Eins og dæmin sanna þá er NATO að verða eina skjól þeirra sem minna mega sín þar sem ófriður er. Það er merkilegt að á meðan aðrar þjóðir sækjast eftir því að ganga í Atlantshafsbandalagið skuli vinstri menn á Íslandi enn berjast fyrir því að herinn fari, að Ísland gangi úr NATO og við afsölum okkur rétti og þeim möguleika að hafa áhrif á gang öryggismála í Evrópu og í heiminum öllum.

Í ræðu hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar kom fram að ætlunin hafi verið að erlendur her væri ekki á Íslandi á friðartímum. Það var sjálfsagt hugmyndin þegar gengið var til aðildar að NATO og vera hersins hér á landi samþykkt. En hversu mikið hefur ekki heimurinn breyst á þessum tíma og hvernig ætla menn að skilgreina friðartíma í ljósi þess sem mögulegt er í dag með nútímahernaðartækni? Hversu fljótt geta ekki friðartímar breyst í ófriðartíma? Hlutverk varnarliðsins hefur einmitt verið að fylgjast með því sem er að gerast og geta gefið merki ef eitthvað kemur upp á og hætta steðjar að svo að hægt sé að grípa í taumana og forða því að úr verði stórslys.

Ég er langt frá því að telja að varnarliðið eigi að hverfa á brott frá Íslandi, hvað þá að það geti orðið árið 2001 eins og hugmyndin er hjá hv. flm. Ég held að við verðum að halda áfram mjög góðu og nánu samstarfi við samstarfsþjóðir okkar í NATO, sérstaklega Bandaríkjamenn og hafa um það samráð hversu mikill viðbúnaður eigi að vera hér á landi. Auk þess eigum við að taka eins mikinn þátt og okkur er mögulegt í starfi NATO í Brussel og í því sem NATO aðhefst annars staðar, í takt við þær breytingar sem eru að verða á bandalaginu.

Hins vegar er áhyggjuefni að horfa yfir vinstri hlið íslenskra stjórnmála og sjá hvernig forustumenn þar hafa talað á undanförnum missirum og mánuðum. Út af fyrir sig kemur málflutningur hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar ekki á óvart en hugmyndir samfylkingarinnar um að varnarliðið hverfi á brott og Ísland verði ekki aðili að varnarbandalagi Atlantshafsbandalagsins koma hins vegar á óvart og valda óróa. Þess vegna tek ég undir með hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þegar hann hvetur fulltrúa þessara flokka til að taka þátt í umræðunni og lýsa sjónarmiðum sínum. Ég sakna þess reyndar að sjá ekki Jóhönnu Sigurðardóttur, foringja samfylkingarinnar í Reykjavík, hér í salnum til að taka þátt í umræðunni. Ég sakna þess einnig að sjá ekki hv. þm. Sighvat Björgvinsson, foringja samfylkingarinnar á Vestfjörðum, í salnum. Í salnum er hins vegar hv. þm. Margrét Frímannsdóttir, foringi samfylkingarinnar á Suðurlandi. Ég vænti þess að hv. þm. fái að heyra sjónarmið hennar varðandi varnarliðið og ekki síður sjónarmið hennar og samfylkingarinnar varðandi framtíð Atlantshafsbandalagsins á þeim nýjum tímum. Mér þætti forvitnilegt að heyra skoðanir samfylkingarinnar á þeim nýju verkefnum sem Atlantshafsbandalagið stendur frammi fyrir.