Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:02:22 (3171)

1999-02-02 17:02:22# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KH
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:02]

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Þessi tillaga kemur greinilega við kviku einstaklinga innan stjórnarflokkanna og væri gagnlegt að heyra í fulltrúum fleiri stjórnmálaafla, þ.e. samfylkingarinnar svokölluðu og kannski fáum við að heyra í þeim áður en þessi fundur er úti. En ég vil aðeins segja að það hlýtur að vera okkur umhugsunarefni að stór hluti íslensku þjóðarinnar býr ekki að þeirri reynslu að hafa búið í herlausu landi. Stór hluti þessarar friðsömu þjóðar sem aldrei hefur farið með vopn, aldrei borið vopn á aðrar þjóðir, þekkir ekki annað en bólfestu erlends hers í landi okkar. (Gripið fram í: Gleymdu ekki víkingunum.) Árum saman var tekist á um þetta efni. Menn töluðu sig heita með og á móti og fólk lagði ýmislegt á sig fyrir málstaðinn, safnaði jafnvel undirskriftum með hersetu í dálitla kistu fyrir her í landi meðan aðrir gengu ár eftir ár tugi kílómetra gegn her í landi og hvort sem við getum metið fylkingarnar á einhverri mælistiku eins og hér hefur verið reynt, þá er það staðreynd að mikil átök voru um þetta mál lengi vel. Minna hefur borið á slíku að undanförnu. Gamlar baráttuaðferðir virðast ekki eiga upp á pallborðið og allt of margir yppta öxlum, láta sér standa á sama um veru erlends hers, nenna ekki að hugsa um eða ræða þá staðreynd hvort hún er nauðsynleg, hvort hún þjóni einhverjum tilgangi og þá hvaða tilgangi eða hvort þær aðstæður hafi skapast í heiminum að breytingar séu eðlilegar.

Staðreyndin er auðvitað sú sem ég ýjaði að í upphafi að sá hluti þjóðarinnar stækkar ört sem þekkir ekki annað fyrirkomulag. Það er einnig ljóst að hinn erlendi her er ekki lengur jafnsýnilegur. Hann er ekki jafnsýnilegur og áður eftir að Flugstöð Leifs Eiríkssonar var tekin í notkun. Nú erum við ekki minnt á hersetuna í hvert einasta sinn sem við förum um flugvöllinn í Keflavík. Við þurfum ekki lengur að fara í gegnum hliðið sem einu sinni var setið og staðið af erlendum hermönnum með byssu um öxl. Þetta hefur allt sín áhrif. Vera hersins truflar ekki Íslendinginn á sama hátt og áður. Það er helst þegar heræfingar fara fram með tilheyrandi undarlegum jeppaferðum og gönguferðum manna í felubúningum, svo ekki sé minnst á lágflug herþotna yfir landinu án tillits til manna og dýra sem eru ekki slíku áreiti vön, þá hrökkva menn stundum við og það verður tilefni umræðna.

Mér finnst ástæða til að minna á að ýmsir fylgjendur hersetunnar hafa ítrekað sagt að hún væri að sjálfsögðu aðeins neyðarráðstöfun og herinn ætti að fara þegar friðvænlegt væri orðið í heiminum. Ég minnist þess að hafa oftar en einu sinni fengið þessar yfirlýsingar frá mönnum, t.d. í kosningabaráttu þegar hentar að nota slíkar yfirlýsingar en við það vilja menn greinilega helst ekki kannast. Kannski var það líka bara aðferð til að selja hugmyndina um nauðsyn hersetunnar. En það er greinilegt að margir eru í rauninni ekki tilbúnir til að taka þá umræðu og skilgreina og staðfesta hvernig og hvenær slíku marki er náð, þ.e. að nægilega friðvænlegt sé í heiminum til þess að við þurfum ekki að búa við erlenda hersetu. Hæstv. utanrrh. var greinilega ekki tilbúinn til þess. Hann fjallaði, fannst mér, í sínu máli fyrst og fremst um efnahagsleg atriði þessa máls. Hv. síðasti ræðumaður gekk hreint til verks og sagði að heimurinn hefði breyst svo mikið síðan herinn kom hingað fyrst og auðvitað hefur hann breyst og satt að segja hélt ég í barnaskap mínum að hann væri orðinn aðeins friðvænlegri en hann hefur löngum verið. Ég verð að segja það, herra forseti, að ef við ætlum að bíða þess að hvergi nokkurs staðar á byggðu bóli sé tekist á með vopnavaldi, þá verður auðvitað her á Miðnesheiðinni svo lengi sem einhver þjóð er til þess búin að hafa þar herlið. Það liggur auðvitað í augum uppi og ég er ansi hrædd um að það verði margir sem ekki eru tilbúnir að fallast á það að nokkurn tíma verði orðið nógu friðvænlegt í heiminum. En það er ekki mín skoðun og aðstæður núna kalla að mínu mati á endurskoðun sem aldrei fyrr.

Nú frekar en nokkru sinni er tímabært að ræða þessi mál og reyna að komast að niðurstöðu og í mínum huga er ekki síst um grundvallarspurningu að ræða en auk þess eru aðstæður sérlega hagstæðar og rökin yfirgnæfandi fyrir því að taka málið upp. Þessi rök koma fram í greinargerð með tillögunni og þau komu fram í máli hv. 1. flm. áðan og ég held að ég bæti ekki um betur í því efni.