Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:09:01 (3172)

1999-02-02 17:09:01# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:09]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Það mál sem hér er til umræðu er þáltill. um að viðræður fari fram við bandarísk stjórnvöld um brottför hersins og yfirtöku Íslands á rekstri Keflavíkurflugvallar. Þetta er gamalkunnugt mál sem verið hefur á dagskrá svo lengi sem herinn hefur verið hér á landi, með ýmsu sniði og voru farnar göngur frá Reykjavík til vallarsvæðisins á Miðnesheiði til þess að mótmæla hersetunni eða við skulum segja varnarliðinu og þótti mönnum illa farið fyrir íslensku sjálfstæði að þurfa að treysta á her í landi.

Það er náttúrlega slæmt til þess að vita að enn skuli slíkar tillögur sem þessar hanga yfir Íslendingum þegar löngu, löngu er ljóst og komið hefur fram að meira að segja þær þjóðir sem þessir hv. flutningsmenn, sem kenna sig við Vinstri hreyfingu -- grænt framboð í dag, hafa helst miðað sig við og töldust til austantjaldslandanna áður fyrr eru núna í stórum stíl að biðja um að komast inn í NATO og gerast aðilar að því bandalagi. Það eru einmitt þær þjóðir sem hv. þingmenn hafa helst litið til sem viðmiðun í sínu pólitíska lífi og dálítið sérstakt að enn skuli vera til aðilar hér á landi sem hafa þó mjög góða reynslu af samveru við herinn og starf innan Atlantshafsbandalagsins skuli ekki sjá villur síns vegar að þessu leyti. En það er náttúrlega ekkert við því að gera. Þessi málatilbúnaður verður að ganga í gegnum lýðræðislegt kerfi eins og okkar og við verðum að lúta því.

Ég held að af hálfu Suðurnesjamanna, sem hafa verið næstir þessum samningi getum við sagt með varnarliðið á því svæði, hafi ekkert það komið upp sem hrekja ætti Íslendinga út í þá óvissu að vilja hrófla við þessu samstarfi. Og það er ekkert sem hefur komið fram í samkomulagi og samningum sem átt hafa sér stað milli varnarliðsins og sveitarfélaga á Suðurnesjum sem bendir til þess að það samstarf sé í hættu eða að herinn sé að fara vegna þess að hann eigi erfitt með að ná samstöðu með sveitarfélögum og Íslendingum á þessu svæði.

Ég minni á að ekki er mjög langt síðan, reyndar bara nokkrir mánuðir, að Suðurnesjamenn og Reykjanesbær gerðu samkomulag til næstu 10 ára um uppbyggingu á holræsakerfi og útrásahreinsun á öllu skolpi frá varnarliðinu og því svæði sem snýr að þeim, sem er þá alfarið á kostnað varnarliðsins að sjálfsögðu en gert í samstarfi við sveitarfélögin á svæðinu. Í þessu tilfelli var það Njarðvíkursvæðið. Sá samningur var unninn á þeim tíma þegar einhverjar hugmyndir voru uppi um að herinn mundi fara og yfirgefa landið vegna þess að staða Íslands væri ekki jafnmikilvæg í þessu varnarsamstarfi innan NATO og áður.

Undir stjórn núv. utanrrh. og ríkisstjórnar Íslands hefur náðst mjög góð uppbygging, sem betur fer, segi ég, og gott samkomulag og traust milli aðila þannig að ég held að þetta samstarf sé að styrkjast enn frekar umfram það sem verið hefur og að ég hygg báðum aðilum mjög til góðs. Þeir samningar sem ég nefndi áðan eru til vitnis um það. Ég held að við þurfum ekki í sjálfu sér að efast neitt um að starf NATO eða Atlantshafsbandalagsins og þeirra ríkja sem styðja þessi samtök að öðru leyti hefur breyst alveg gríðarlega mikið á undanförnum áratugum. Í dag erum við ekkert að horfa á NATO í raun sem árásarbandalag eða varnarbandalag, sem gerir árás á aðrar þjóðir ef á þarf að halda, heldur erum við fyrst og fremst að tala um bandalag þjóða sem verndar minnihlutahópa, meira að segja í Evrópu eins og á Kosovo-svæðinu sem við þekkjum úr fréttum í dag. Það eru engir aðrir en NATO sem geta tekið á því máli og hafa dug og kjark til þess. Það segir okkur náttúrlega ýmislegt um þá þróun sem orðið hefur á samstarfi NATO-ríkjanna að þar er ekki árásarbandalag á ferðinni heldur friðarbandalag. Þetta hefur sem betur fer kristallast í þeirri þróun sem átt hefur sér stað í samstarfi okkar og NATO. Við erum að senda fólk til friðarstarfa sem tengjast aðild okkar að NATO og er þá annar þátturinn í því hlutverki okkar, skulum við segja, að vera fullgildir aðilar að NATO og sýna þann vilja að gera eitthvað meira en að skaffa land, þ.e. að útvega fólk og senda það til friðargæslustarfa eða annarra starfa sem skipta máli á þessum vettvangi. Að þessu leyti hefur starf okkar innan NATO þróast í enn víðtækari skilningi með því að starfa með þessum þjóðum en ekki einungis að leggja til land sem ég hef hingað til talið vera sjálfsagt hlutverk okkar. Um leið erum við að fá tekjur sem er svo annars eðlis. Þetta varnarsamstarf hefur komið okkur vel tekjulega séð og hvað varðar atvinnuuppbyggingu á Suðurnesjum, en ég lít ekki svo á að það sé aðalatriði þessa máls. Aðalatriðið er að við erum að þróa áfram með öðrum NATO-ríkjum sérstaklega farsælt bandalag sem nú stuðlar að friði í öllum heiminum.