Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:19:49 (3174)

1999-02-02 17:19:49# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:19]

Kristján Pálsson (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða frekar um hártoganir hv. þm. um árásir varnarbandalagsins. Ég sagði að árásir Atlantshafsbandalagsins fælust náttúrlega í að ef á NATO-þjóð yrði ráðist, þá hefði NATO að sjálfsögðu gert samkomulag um það að verja sameiginlega aðildarþjóðir NATO.

Ég get upplýst hv. þm. um það að ég hef aldrei farið í Keflavíkurgöngu. Hvaðan hann fær upplýsingar um það veit ég ekki en hann fær að vita það héðan úr ræðustólnum að svo er ekki.

Ég veit ekki hvað hann á við með að ég hafi gagnrýnt varnarliðið en aftur á móti held ég að almennt hafi viðhorf Íslendinga til varnarliðsins breyst á síðustu áratugum. Fólk skiptist ekki í eins miklar fylkingar og var fyrir 10 árum, varðandi varnarliðið sjálft. Ég held því að sáttin um þetta samstarf sé meiri og almennari en áður og þess vegna er afstaða hv. þingmanna í núverandi græningjaflokki óskiljanleg. Ég er mjög hissa á þessum ágætu þingmönnum að halda þessu máli til streitu þegar meira að segja helstu lærimeistarar þeirra í austrinu biðja um að komast í klúbbinn. Með hliðsjón af því held ég að þeir hafi dagað uppi og ekki áttað sig á þeim breytingum sem hafa átt sér stað. NATO heldur að sjálfsögðu í þann rétt að nýta þau vopn sem til eru, sem fælingarvopn en ekki sem árásarvopn.