Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:27:00 (3177)

1999-02-02 17:27:00# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., MF
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:27]

Margrét Frímannsdóttir:

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrir þá tillögu sem hér er lögð fram af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni. Reyndar er kominn tími til að hún sé tekin á dagskrá. Þetta er 9. mál þingsins sem lagt var fram á allra fyrstu dögum og sérkennilegt, í ljósi þess að við höfum rætt skýrslu utanrrh., að málið skuli ekki hafa verið tekið á dagskrá fyrr þannig að nefnd mætti fjalla um það.

Í mínum huga er þessi tillaga fyrst og fremst til þess fallin, eins og kom fram í ræðu hv. flutningsmanns, að sátt náist um þetta mikilvæga mál og þá stefnu sem íslensk stjórnvöld og Íslendingar allir stæðu að varðandi utanríkismál okkar.

Það kom fram áðan hjá hv. þm. Kristínu Halldórsdóttur að gamlar baráttuaðferðir dygðu ekki lengur, menn tækju ekki þátt í gömlum baráttuaðferðum, t.d. eins og Keflavíkurgöngu, að halda á lofti kröfuspjöldum og fleiru sem við munum. Þó er ekki svo langt síðan þeim aðferðum var beitt. Það er auðvitað eðlilegt. Tímarnir hafa breyst mikið og umræðan og þær aðferðir sem menn nota til að vekja athygli á skoðunum sínum hafa þurft að taka mið af breyttum aðstæðum. Umræðan hér hefur hins vegar ekki gert það.

Hér liggur fyrir tillaga sem felur í sér að fulltrúar allra þingflokka setjist niður, skoði þetta mál, skili Alþingi skýrslu og Alþingi meti þá skýrslu og framhaldið. Þá koma hér upp hv. þingmenn og gera eitthvað allt annað úr tillögunni en hún raunverulega fjallar um. Ég tek heils hugar undir það að nauðsynlegt sé að fara yfir þessi mál í heild sinni miðað við breyttar aðstæður. Ég tel mikilvægt að skoða stöðu Íslands og móta síðan heildstæða stefnu í öryggis- og friðarmálum sem sem allra mest sátt gæti náðst um. Menn tala um að ekki sé lengur hægt að færa sömu rök og flutt voru á tímum kalda stríðsins en okkur er ekki sæmandi að ræða ekki málefnalega þá stöðu sem við erum í, um þróunina innan NATO. Sumir lýsa NATO sem friðarbandalagi en aðrir sem hernaðarlögreglu sem beitt sé til að kúga til hlýðni og hafi leyfi til að nota kjarnorkuvopn að fyrra bragði. Ég aðhyllist frekar þá skýringu en að NATO hafi í dag áunnið sér sess sem friðarbandalag. Því miður tel ég það langt í frá.

[17:30]

Þá er spurningin hvort við, eða Alþingi Íslendinga, séum ekki tilbúin til þess að fara í málefnalega umræðu um þessa stöðu, um þá þróun sem á sér stað, hvert við viljum stefna, og mynda um það sem allra mesta sátt í þjóðfélaginu, ekki bara innan þeirra flokka sem starfa í ríkisstjórn á hverjum tíma heldur þannig að sem allra mest sátt verði meðal þjóðarinnar. Að því viljum við stuðla og ég tel að sú tillaga sem hér er lögð fram sé spor í þá átt og þess vegna er ég henni hlynnt.

Það var spurt alveg sérstaklega um stefnu samfylkingarinnar í þessum efnum, en hún hefur gert með sér samstarfssamning til næstu fjögurra ára og er að ganga frá sinni kosningastefnuskrá og verkefnaskrá til næstu fjögurra ára. Þar er að hluta tekið undir þessa tillögu, þ.e. að við segjum, þó að með öðrum orðum sé, að teknar verði upp viðræður við Bandaríkjastjórn um varnarsamninginn og samkomulag honum tengt sem gert var árið 1994 þar sem ráðgerður gildistími samkomulagsins er til 2001 og endurskoðunarákvæðin sem taka gildi árið 2000. Við viljum að farið sé í þessa vinnu, við viljum fá umræðu og að lagt sé mat á þá varnarþörf sem ævinlega er talað um þegar Ísland á í hlut.

Hér var líka spurt: Eru í samningum samfylkingarinnar hugmyndir um að segja upp eða yfirgefa NATO, þ.e. breytingar á aðild Íslands að NATO á þessu tímabili sem samningurinn nær til, næstu fjögur ár? Nei, svo er ekki. Það eru ekki ráðgerðar breytingar á aðild Íslands að NATO og það er hægt að svara því alveg skýrt. En við viljum að þessi undirbúningur, að þessar viðræður eigi sér stað og raunverulegt mat á stöðu okkar innan NATO og í öryggis- og friðarmálum og síðan verði teknar ákvarðanir af hálfu Alþingis um framhaldið og þá náttúrlega í sem allra mestri sátt. Menn gera sér líka grein fyrir því að við þurfum að skoða mjög marga þætti. Reyndar kom hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon inn á það t.d. hvað þetta þýddi fyrir atvinnulíf á Suðurnesjum sem væri með töluverðum blóma nú um stundir. Við vitum hins vegar að brottför hersins hefði fyrirsjáanlega veruleg áhrif á efnahags- og atvinnulíf í landinu og ekki síst á Suðurnesjum, þannig að alla þessa þætti þarf að skoða og ræða. Í málefnasamningi okkar, verkefnaskrá okkar til fjögurra ára, mun verða farið mjög ítarlega yfir þetta.

Það vöknuðu nokkrar spurningar þegar hæstv. utanrrh. var að tala, sem ég vildi gjarnan beina til hans. Ég ætlaði reyndar í andsvar en hafði sjálfsagt ekki nógu hátt til þess að vekja athygli á mér. Mig langaði til þess að spyrja hæstv. ráðherra hvort þær skipulagsbreytingar sem ráðherrann talaði um að ættu sér stað innan NATO muni hafa einhver áhrif á umfang starfsins hér, og þá kannski sérstaklega hvað varðar veru eða starfsemi hersins, og hvort einhverjar raunverulegar viðræður eigi sér stað í ljósi þeirrar þróunar sem hefur orðið innan Evrópu og þeirrar samvinnu sem er milli Evrópuþjóðanna um uppbyggingu öryggiskerfis Evrópu án þessarar sterku íhlutunar Bandaríkjanna eða annarra sem standa utan Evrópu. Sérstaklega heyrir maður minnst á þetta innan Evrópuráðsins öðru hvoru, ekki bara uppbyggingu Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu, heldur kemur þar oft fram í máli þingmanna vilji til þess að komið sé upp sérstöku öryggiskerfi Evrópu án þessarar sterku íhlutunar þjóða utan Evrópu. Mig langar til að beina sérstaklega þessum tveimur spurningum til hæstv. ráðherra.