Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:35:18 (3178)

1999-02-02 17:35:18# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:35]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Varðandi þær spurningar sem komu fram hjá hv. þm. þá er það alveg ljóst að skipulagsbreytingar innan Atlantshafsbandalagsins geta að sjálfsögðu haft áhrif hér á landi. Þessar skipulagsbreytingar hafa þegar haft hér áhrif og vitna ég þar til þeirra breytinga sem hafa orðið á uppbyggingu hernaðarkerfis og varnarkerfis NATO. Hins vegar er aðstaðan hér mjög mikilvægur hlekkur í þessu varnarkerfi og það verður að horfa á þetta allt saman í ljósi aðildarinnar að Atlantshafsbandalaginu.

Hvað með öryggiskerfi án Bandaríkjanna í Evrópu? Margar Evrópuþjóðir halda því fram --- ekki margar en nokkrar --- að það eigi að reyna að byggja upp sjálfstætt öryggiskerfi Evrópu. Við Íslendingar og núverandi ríkisstjórn erum algjörlega andvíg því. Við teljum að það sé óhugsandi að byggja upp gott öryggiskerfi í Evrópu án aðildar Kanada og Bandaríkjamanna. Og út á það gengur þetta allt saman.

Hv. þm. segir: Við skulum setja niður nefnd til að skapa sátt. Verðum við ekki að hafa einhverja stefnu þegar við göngum inn í það starf? Ég botna því miður ekkert í stefnu samfylkingarinnar í þessu máli, annað en það að samfylkingin hefur það á stefnuskrá sinni að ganga ekki úr NATO næstu fjögur árin, hugsanlega eftir fjögur ár, og að skapa þurfi sátt um málið. Hún vill hins vegar ganga til samstarfs á grundvelli þessarar þáltill. sem gerir ráð fyrir brotthvarfi Bandaríkjamanna héðan af landi og að Ísland standi utan hernaðarbandalaga í framtíðinni, þ.e. standi utan NATO. Ef samfylkingin vill ganga til umræðna á þessum grundvelli þá er það stefna út af fyrir sig en ég get fullyrt að það liggur alveg ljóst fyrir að Framsfl. er ekki tilbúinn til þess.