Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 17:44:33 (3182)

1999-02-02 17:44:33# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., MF (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[17:44]

Margrét Frímannsdóttir (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að eyða tíma mínum í að lesa þessar setningar upp rétt eina ferðina enn fyrir hv. þm. Ef hv. þm. er svo tregur að hann nær ekki rétt niður þremur setningum þá býð ég ekki í málflutning hans að öðru leyti.

Það leggst lítið fyrir kappann að telja það okkur helst til lasts að Íslendingar skuli vilja hafa stolt til að bera til að taka upp viðræður að fyrra bragði. Eiga það að vera Bandaríkjamenn eða aðrar þjóðir sem stjórna því hvenær rædd er framtíð öryggismála á Íslandi og hvaða stefnu við höfum? Það er ekki sæmandi hv. þingmönnum að tala á þennan hátt. Auðvitað ráðum við og eigum að ráða ferðinni. Auðvitað erum það við sem viljum taka upp viðræður. Þetta er okkar land. Við erum íslensk þjóð. Þetta er hluti af sjálfstæði þjóðarinnar. Það er mjög sérkennilegt, virðulegi forseti, að hlusta á það hér þegar hv. þm. segir að það sé afar slæmt að eitthvert stjórnmálaafl skuli ætla að taka upp viðræður að fyrra bragði og leggur alveg sérstaka áherslu á það, að fyrra bragði. Við höfum stolt til að bera, hv. þm. Kristján Pálsson, fyrir íslenska þjóð. Ég er alveg sannfærð um að hæstv. utanrrh. finnst eðlilegt að hann hefji og stýri viðræðum sem varða framtíð íslensku þjóðarinnar. En það ætla ég rétt að vona að hv. þm. Kristján Pálsson komist aldrei í þá aðstöðu að eiga að bera ábyrgð á þeim viðræðum ef lítillætið er eins og fram kom hér áðan.