Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:02:13 (3188)

1999-02-02 18:02:13# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:02]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í umræðum eru mjög mismunandi skoðanir á því hvernig rétt sé að standa að því að útrýma kjarnorkuvopnum. Hv. þm. Ögmundur Jónasson hefur gerst talsmaður þess að NATO leggi einhliða niður sín kjarnorkuvopn án tillits til þess hvað gerist annars staðar. Sannleikurinn er sá að síðan kalda stríðinu lauk, eða síðan 1991, hefur kjarnorkuvopnum NATO-ríkjanna fækkað um 80%. Það hefur verið stefna vesturveldanna að fækka kjarnavopnum smátt og smátt með samningum. Fyrst með START I samningnum, síðan START II samningnum þar sem reiknað er með að fækka kjarnorkuvopnum enn meir. Síðan er byrjað að undirbúa Start III samninginn þar sem gert er ráð fyrir því að kjarnaoddum Rússa og Bandaríkjamanna verði fækkað í 2.500, en áður voru þeir 6.000, þ.e. áður en START I samningurinn komst á. Menn geta haft mismunandi skoðanir á því hvernig þetta skuli gert en ég hef enga trú á því að það gerist með því að vesturveldin lýsi þessu einhliða yfir meðan menn eins og Saddam Hussein, sem hv. þm. vill helst ekki taka á, eru að koma sér upp kjarnavopnum. Hv. þm. vill að hann hafi frið til þess, eins og ég skil hans málflutning, og ýmsar aðrar þjóðir. Það er að sjálfsögðu nauðsynlegt að halda þeim í skefjum, m.a. með viðskiptabanni á vegum Sameinuðu þjóðanna sem er hið alþjóðlega öryggiskerfi sem menn eru að reyna að byggja upp. En mér skilst að hv. þm. þessa nýja flokks vilji ekki einu sinni styðja þetta alþjóðaöryggiskerfi. Ég get út af fyrir sig skilið að þeir vilji ekki styðja NATO. En það kemur á óvart að þeir vilji ekki einu sinni styðja alþjóðlegt öryggiskerfi.