Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:35:42 (3195)

1999-02-02 18:35:42# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:35]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Á Vesturlöndum veður mjög uppi sjálfbirgingslegur eða hrokakenndur málflutningur af þessu tagi, að vegna þess að flokkseinræðiskerfin í Austur-Evrópu hrundu að lokum innan frá þá hafi réttmæti kjarnorkuvígbúnaðarstefnunnar og tilvistar NATO sannast. Það er eiginlega verið að segja við okkur að ástandið á kaldastríðstímanum hafi verið gott og heilbrigt og ágætt, er það ekki?

Í raun og veru finnst mér þetta alveg furðulegur málflutningur, fyrir nú utan það að aldrei er hægt að ræða um atburði mannkynssögunnar í þáskildagatíð af neinu viti. Hver getur sagt að heimurinn væri ekki friðvænlegri og betri, lífskjörin betri og jafnari og margt öðruvísi ef t.d. þjóðir heims hefðu valið sér aðrar leiðir eftir seinni heimsstyrjöldina en þær að eyða þessari gífurlegu orku í vígbúnaðarkapphlaup? Gætu t.d. ekki lífskjör þriðja heimsins verið betri ef þó ekki væri nema brot af þeim óhemjulegu verðmætum sem hefur verið sóað í vígbúnað á þessum áratugum hefði gengið til þess að byggja upp og þróa lífskjör og bæta mannlíf í þeim löndum? Hvernig geta menn talað svona? Þó maður seilist nú ekki svo langt um hurð til lokunnar að nota það sem röksemdafærslu að spyrja, sem auðvitað er vel hægt að gera: Hvað munaði litlu t.d. nokkrum sinnum á kaldastríðstímanum að illa færi? Og mundu menn tala svona í dag ef eitt af þeim þrem, fjórum tilvikum sem viðurkennt er að heimurinn stóð á barmi kjarnorkustyrjaldar hefði endað illa en ekki vel?

Ég held að menn eigi að forðast að ræða um hlutina með þessum hætti, með þessum sjálfbirgingslega, hrokakennda hætti sem mér fannst bera á í máli hv. þm. Kristjáns Pálssonar, einhvers konar rétttrúnaðarstíl í rökræðum, eins og eitthvað hafi sannast og annað afsannast í þessum efnum. Mannkynið stendur því miður enn frammi fyrir því að heimurinn er fullur af gereyðingarvopnum og það er skelfileg tilhugsun að þurfa að sofna út frá því á kvöldin og vakna til þess á morgnana.