Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:38:00 (3196)

1999-02-02 18:38:00# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., KPál (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:38]

Kristján Pálsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er að sjálfsögðu falleg hugsun að ímynda sér að allir geti verið vinir í heiminum og unnið saman, og við vonum svo sannarlega að það verði einhvern tímann, og að vígbúnaðarkapphlaupið þurfi ekki að verða til þess að börn þurfi að svelta annars staðar á jörðinni. En meðan svo er ekki og við höfum ekki á okkur andvara þá getum við búist við því að menn eins og Saddam Hussein yfirtaki stjórnina í bandalögum, eins og ég veit að hv. þm. þekkir, því hann hefur fullan hug á því að ná völdum og hefur reynt ítrekað að leggja undir sig nærliggjandi þjóðir. Þar hefur verið gripið inn í, ekki að fyrra bragði heldur eftir að sá einræðisherra réðst á nágrannaríki sín, til þess að stöðva náttúrlega frekari útrás þessa einræðisherra. Slíkir einræðisherrar hafa alla tíð verið til.

Það er einmitt málið, herra forseti, að enginn veit svo sem hversu litlu munaði að þessi tvö hernaðarbandalög færu í stríð en eitthvað réð því þó að Varsjárbandalagið, sem ég taldi nú alltaf líklegra til þess að fara í stríð við Vesturveldin, þorði ekki eða hafði alla vega ekki getu til þess, ef það hafði á annað borð einhvern tíma álitið sig geta gert eitthvað eða talið sig hafa ástæðu til að fara í stríð. Það var einfaldlega vegna þess að Vesturveldin höfðu byggt upp þann mátt að enginn þorði að ráðast á þau. Þannig verður það að vera áfram.

Ég get svo tekið undir þessa eðlilegu lífssýn sem hv. þm. boðar hér, að allir eigi að una glaðir við sitt og vera sáttir. Þar til það gerist verðum við að halda uppi eðlilegum vörnum landsins.