Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:45:25 (3199)

1999-02-02 18:45:25# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:45]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Þetta voru áhugaverðar upplýsingar frá hv. þm. og sjálfsagt einhverjum kunnar. Það er hárrétt að viðhorfin hafa breyst mikið frá 1918 og síðan aftur frá lokum seinni heimsstyrjaldarinnar. Það kom að vísu ekki fram tímasetning á því hvenær Sjálfstfl. tók að breyta um áherslur hvað það varðar að hér skyldi ekki vera her á friðartímum. Nema hv. þm. hafi verið að segja að einhvers staðar djúpt niðri sé stefna Sjálfstfl. enn óbreytt og það séu bara þessar tuttugu styrjaldir hér og þar sem valdi því að Sjálfstfl. telji ekki tímabært að herinn fari, einkum átökin í Afríku, hin sorglegu innanríkisátök þar sem yfirleitt eru borgarastyrjaldir milli ættbálka.

Og hverjir skyldu nú bera pínulitla ábyrgð á þeim aðrir en nýlenduríkin sem drógu landamæri eins og raun ber vitni? Hvaðan skyldu vopnin koma í Afríku, herra forseti? Jú, það gæti verið eitthvað pínulítið af sænskum vopnum. Það er ævinlega gripið til að benda á að Svíar selji líka vopn. En þá ættu menn líka að leyfa Svíum að njóta sannmælis og viðurkenna að Svíar hafa sett sér strangari reglur en nokkur önnur þjóð hefur gert hvað það varðar að selja ekki vopn inn á átakasvæði. Svíar hafa verið helstu talsmenn þess í heiminum að það komist á alþjóðlegur bindandi samningur um leikreglur á þessum sviðum. Hann vantar því að einhvers staðar frá koma öll þessi þróuðu vopn. Ég held að við verðum líka að horfast í augu við það að Vesturlöndin bera einnig að því leyti til mjög mikla ábyrgð.

Síðan bendi ég hv. þm. á að hægt er að vera í NATO án þess að það þurfi að þýða ávísun á erlendan her í landinu. Það er ekki erlendur her í Noregi og það er ekki erlendur her að staðaldri í Danmörku. (EOK: Þeir hafa her.) Og Danir segja að ekki kæmi til greina að hafa þar erlendan her.

Ef bandarísk yfirvöld eða hermálasérfræðingar sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson vitnar oft í kæmust t.d. að þeirri niðurstöðu að hér þyrftu ekki að vera orrustuþotur og að nægjanlegt væri að þær væru tiltækar í Skotlandi og í Bandaríkjunum, vill þá ekki hv. þm. að þær fari? (Gripið fram í.) Já. Það var nákvæmlega það sem bandarísk stjórnvöld bentu á, þ.e. að ekki væri lengur þörf fyrir varanlega staðsetningu orrustuflugsveitar hér. En það voru íslensk stjórnvöld sem báðu um að a.m.k. fjórar yrðu áfram.