Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:47:48 (3200)

1999-02-02 18:47:48# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:47]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Herstöðin var reist á Ísland vegna þess að Ísland hafði hernaðarlega mikla þýðingu og við töldum það skyldu okkar, þáverandi stjórnvöld á Íslandi og forustumenn lýðræðisaflanna, flokkanna þriggja, að taka þátt í þessu. Við bærum sameiginlega ábyrgð á því og ættum þess vegna að taka þátt í störfum NATO og ættum þess vegna að gera þennan samning við Bandaríkin um að hafa hér herstöð.

Engum dettur í hug að stórveldi, hversu rík sem þau eru, byggi herstöðvar að gamni sínu. Nei, herstöðvar eru þar sem þörf er á þeim. Þess vegna tók ég það fram, herra forseti, að ef sá tími kæmi, sem getur vel komið, að herfræðilega verði ekki talin þörf á herstöðinni þá ætlaði ég að vona að okkar besta vinaþjóð, Bandaríkin, mundu samt lýsa því yfir að hún væri reiðubúin að verja frelsi og sjálfstæði Íslands hér eftir sem hingað til. Þetta var inntakið í því sem ég var að segja. Þetta var inntakið í því.

Við störfum með Norður-Atlantshafsbandalaginu. Við höfum heitið því að vera þar og við ættum að líta á sameiginlega hagsmuni Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku við mat á því hvort við ættum að leggja niður þetta bandalag. Við ætlum ekki einir að fara út úr því af því að við teljum okkur þau blómabörn hér norður í hafi að okkur komi ekkert við hvað er að gerast í heiminum. Við ætlum að standa með NATO og okkar samstarfsríkjum og þannig verður það. Engin önnur sjónarmið hafa nokkurn tíma verið uppi af hálfu íslenskra stjórnvalda en þau að taka sameiginlega afstöðu með okkar bræðraþjóðum, með þeim þjóðum sem ástunda lýðræði. Og það er baráttan fyrir lýðræði sem skiptir öllu máli, herra forseti.

Við skulum rifja það upp að í tugum ríkja í heiminum eru hreinir glæpamenn við völd. Það er hið hörmulega sem við horfumst í augu við og því skulum við ekki gleyma. Því er aðalmálið fyrir okkur og aðalbaráttumálið, ef við getum lagt því lið, að berjast fyrir lýðræði í þessum heimi.