Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 18:50:02 (3201)

1999-02-02 18:50:02# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[18:50]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Það er að sönnu rétt, því miður, að misjafn sauður er í mörgu fé í hópi ráðamanna heimsins og við gætum út af fyrir sig farið yfir það við tækifæri, ég og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, hverra bandamenn þeir eru eða hafa verið í gegnum tíðina. Þá kæmi margt dapurlegt í ljós óttast ég. Þeir hafa átt það til vinirnir, Bandaríkjamenn, sem hv. þm. mærir hér mjög, að söðla um og vinir þeirra í dag eru stundum orðnir óvinir þeirra á morgun. Ærið oft hefur bandarísk heimsvaldastefna mætt eigin vopnum sem hún var búin að byggja upp þegar nýir vindar hafa blásið í alþjóðastjórnmálum. Nægir þar að vitna aftur í dæmið um Írak og Saddam Hussein sem naut stuðnings Bandaríkjamanna á meðan þeir áttu í styrjöld við Íran og margháttaðrar aðstoðar við að byggja upp sína hernaðarmaskínu sem Bandaríkjamenn mættu síðan sjálfir nokkrum árum síðar.

Það sem mér finnst á skorta til þess að menn ræði þetta eins og ég tel alveg einboðið að gera, þ.e. út frá stöðu Íslands sem sjálfstæðs og fullvalda ríkis --- eða hvað? --- það er að við getum rætt um hlutina hvern fyrir sig. Við erum hluti Vesturlanda og við liggjum á ákveðnu landfræðilegu svæði og þess vegna í öryggislegu samhengi. En það er hægt að ræða um spurninguna um veru erlends hers hér í landinu sjálfstætt án þess að það sé allt saman bara einn keppur. Það gera aðrar þjóðir. Þær ræða alveg sjálfstætt spurninguna um NATO-aðild, samskipti við sína nágranna og svo spurninguna um erlendan eða ekki erlendan her. Ég sakna þess, eða öllu heldur gagnrýni tilraunir manna hér til að draga þetta alltaf allt saman í eitt atriði eins og það sé algjörlega sjálfkrafa bara eitt og hið sama hvort við höfum afstöðu til þess að hér sé erlendur her, hvort við séum í NATO eða ekki í NATO, eða hvort við séum yfirleitt hluti af Vesturlöndum eða ekki hluti af Vesturlöndum. Þetta er sitt hvað. Mér finnst að það eigi að vera hægt að ræða um hlutina eins og þeir eru í því ljósi.