Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 19:03:23 (3204)

1999-02-02 19:03:23# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[19:03]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég tek mark á því sem segir í greinargerðinni. Ég á e.t.v. ekki að gera það. Þingmaðurinn kvartar mjög yfir því að ég telji þennan tillöguflutning gamaldags og hann telur að það sé það eina sem ég hef haft hér fram að færa. Svo bætir hann við og gefur í skyn að við séum hangandi aftan í Bandaríkjamönnum og handbendi þeirra í öllum málum, sem hann segir að sé ekki bara gamaldags heldur lítilmótlegt. Svo er hv. þm. að kvarta undan málflutningi okkar. Ég held að hann ætti stundum að gæta orða sinna þegar hann afgreiðir málflutning annarra. Ég veit ekki betur en að við höfum tekið efnislega þátt í þessari umræðu þótt að hv. þm. líki það ekki.

Ég vil segja eitt í sambandi við málflutning hv. þm. þegar hann talar um Álandseyjar og telur að þetta ætti að vera eins á Íslandi og á Álandseyjum. Ég vænti þess að hv. þm. viti að Finnar fara með utanríkismál eyjanna. Finnar eiga 30 þúsund manna fastaher, flugher og flota og þar er á hættutímum hægt að vígbúa hálfa milljón manna. Er það eðlilegt, hv. þm., að leggja þetta að jöfnu? Er það málefnalegur málflutningur að víkja að Álandseyjum sem svipuðu dæmi og Íslandi í þessu sambandi?

Að öðru leyti vænti ég þess að þessi umræða haldi áfram þegar utanríkismál verða rædd hér vegna skýrslu sem mun koma frá utanrrn. Þar munum við að sjálfsögðu gera skilmerkilega grein fyrir afstöðu okkar til Atlantshafsbandalagsins, framtíðarhlutverks þess og stefnu Atlantshafsbandalagsins þannig að það gefst aftur tækifæri til þess að ræða þessi mál.