Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 19:05:41 (3205)

1999-02-02 19:05:41# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., Flm. SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[19:05]

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Fyrst með Álandseyjar. Að sjálfsögðu er staða Íslands og Álandseyja ekki hin sama. Ég var ekki að segja að þetta væru algjörlega sambærilegir hlutir. Ég var hins vegar að vísa til þeirrar stefnu sem stjórnvöld á Álandseyjum hafa, þ.e. að sjálfstjórnarsvæðið Álandseyjar er í fyrsta lagi hlutlaust, sjálfstjórnarsvæðið Álandseyjar leyfir í öðru lagi ekki vígbúnað á sínu landi og sjálfstjórnarsvæðið Álandseyjar hefur í þriðja lagi tekið upp virka friðarstefnu á því formi að þar starfar friðarstofnun og starfsemi hennar er styrkt á ýmsan hátt. Þangað er t.d. boðið til námskeiðahalds og til ráðgjafar talsmönnum minnihlutahópa, svæða og héraða sem eru að velta fyrir sér að taka upp sjálfstæðari stöðu, t.d. innan einhverra ríkjasambanda. Mér er kunnugt um að mörg svæði hafa þegið ráðgjöf af þessum toga frá friðarstofnun Álandseyja á undanförnum árum. Það eru hlutir af þessu tagi og staða sjálfstjórnarsvæðisins Álandseyja sem vopnlausrar smáþjóðar sem ég var að vísa til. Að því leyti vildi ég að við hefðum það að fyrirmynd.

Ég fagna þeim skoðanaskiptum og efnislegu umræðum sem hér hafa farið fram. Mér er ljóst að við erum ósammála og þó það nú væri. Það er ekki það sem er vandinn í þessari umræðu. En ég leyfði mér að gera athugasemdir við þennan málflutning í fyrstu ræðu hæstv. utanrrh. og reyndar einnig í ræðu hv. þm. Kristjáns Pálssonar, þegar það voru orðin sjálfstæð rök sem þeir beittu í umræðunni að þeir tækju sér vald til þess að ákveða hvað væri gamaldags og hvað ekki. Auk þess sem spurningin er náttúrlega: Er það eitthvað verra? Geta ekki gamaldags viðhorf verið mjög góð og rétt, eða hvað? Er það sönnun þess að eitthvað sé rangt og vitlaust að það sé gamaldags? (Gripið fram í: Íhaldssemi.) Eru þá t.d. skoðanir eldra fólks yfirleitt verri en skoðanir yngra fólks eða hvað er þetta?

Það sem ég var að segja, herra forseti, hvað þennan afmarkaða þátt málsins varðaði, og ég var ekki að kvarta eða kveina, var að þetta er enginn málflutningur.