Brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar

Þriðjudaginn 02. febrúar 1999, kl. 19:08:02 (3206)

1999-02-02 19:08:02# 123. lþ. 57.3 fundur 9. mál: #A brottför hersins og yfirtaka Íslendinga á rekstri Keflavíkurflugvallar# þál., utanrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 57. fundur, 123. lþ.

[19:08]

Utanríkisráðherra (Halldór Ásgrímsson) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. virðist vera mjög viðkvæmur fyrir þessu orðinu gamaldags. Ég get huggað hann með því að sá flokkur sem ég hef starfað í svo lengi sem ég hef verið í stjórnmálum hefur oft verið talinn gamaldags og ég býst við því að Alþb., samfylkingin og Alþfl. og allt þetta kraðak hafi oft notað þetta orð um Framsfl., kallað okkur sveitamenn og sagt að af okkur væri fjósalykt og ég veit ekki hvað og hvað. (SJS: Finnst þér þetta merkilegur málflutningur?) Mér finnst þetta í sjálfu sér ekkert merkilegur málflutningur en ég kippi mér hins vegar ekkert upp við hann.

En ég endurtek, hvort sem þingmanninum líkar þetta orð eða ekki, að mér finnst málflutningur hans og í reynd vinstri hreyfinga almennt á Norðurlöndunum vera algjörlega úr takti við tímann. Ég skil hann ekki vegna þess að mér finnst þeir tala um þessi mál eins og ekkert hafi gerst og að NATO sé ekki að ganga í gegnum þetta mikla umbreytingarskeið. Ég hvet hv. þm. að fara til aðalstöðva Atlantshafsbandalagsins í Brussel og kynna sér þessi mál og ég skal með gleði greiða fyrir því. Ég sé ekki neina skömm að því að fara þangað og fara yfir þessi mál.

Um það hvort þingmaðurinn skiptir um skoðun eða ekki skal ég ekki fullyrða. Fyrrverandi formaður Alþb., núverandi forseti Íslands, hafði hafið mikla athugun á því hvað var að gerast innan Atlantshafsbandalagsins og ég hvet hv. þm. til þess að halda áfram því starfi. (SJS: Ég fylgist mjög vel með ...)