Dvalarrými fyrir aldraða

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:33:30 (3208)

1999-02-03 13:33:30# 123. lþ. 58.1 fundur 139. mál: #A dvalarrými fyrir aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:33]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Það var snemma á þessu þingi sem ég lagði fram fyrirspurn á þskj. 139 til hæstv. heilbrrh. um dvalarrými fyrir aldraða. Fyrirspurnin er á þessa leið, með leyfi forseta:

,,1. Hve mörg dvalarrými fyrir aldraða í ,,mjög brýnni þörf`` verða tekin í notkun á næsta ári [þ.e. á árinu 1999] miðað við forsendur fjárlagafrumvarpsins?

2. Hvar eru þessi dvalarrými og hve mörg rými eru á hverjum stað?

3. Hve margir aldraðir eru í ,,mjög brýnni þörf`` fyrir hjúkrunarrými í landinu nú? Hvar eru þeir? Hve margir munu samkvæmt spám bætast við á þessu ári?``

Frá því að þessi fyrirspurn var flutt hefur mjög margt komið fram opinberlega sem í raun svarar efni hennar. Það er í fyrsta lagi ljóst að gert er ráð fyrir því að boðið verði út í byrjun þessa árs, eins og við höfum rætt hér fyrir nokkru, hjúkrunarheimili fyrir aldraða í Reykjavík með 60 rúmum og átti ég frumkvæði að umræðu um það mál utan dagskrár, þ.e. rekstrarformið, þar sem gert var ráð fyrir því að bjóða út í heilu lagi þjónustu við 60 aldraða. Það gagnrýndi ég þá og fleiri hv. þingmenn. Í öðru lagi hefur verið gengið frá samningum við Garðbæinga um rekstur hjúkrunarheimilis þar sem áður var klaustur í Garðabæ. Í þriðja lagi hefur verið tekið í notkun hjúkrunarrými fyrir aldraða í Ási í Hveragerði. Í fjórða lagi er inni í þessari mynd hjúkrunardeild á Víðinesi og síðan er gert ráð fyrir því að hjúkrunarrýmum verði fjölgað með því að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými.

Allt er þetta hið besta mál en vandinn er hins vegar risavaxinn engu að síður og nauðsynlegt er að reyna að átta sig á því hvernig þróunin verður í þessum málum á næstu árum því að þrátt fyrir það sem þegar hefur verið ákveðið er augljóst mál að mjög verulega vantar á hjúkrunarrými fyrir aldraða, aðallega hér á þéttbýlissvæðinu og það eigi síðar en tafarlaust.

Mér sýnist á þeim tölum sem ég hef skoðað í þessu sambandi að í rauninni muni enn þá vanta á næsta ári um það bil 100 rými fyrir aldraða í mjög brýnni þörf. Þó að tekið hafi verið tillit til þeirra nýju rýma sem tekin hafa verið í notkun þá bætist alltaf ákveðinn fjöldi af fólki við þannig að mér sýnist það augljóst mál að við séum ekki að sjá fyrir endann á því hvernig á þessum vanda verður tekið. Þess vegna á fyrirspurnin við þó hún hafi verið flutt snemma í haust og ég legg á það áherslu sem aðalatriði málsins að nú, á ári aldraðra verði teknar ákvarðanir um aðgerðir í þessum efnum sem hafa það í för með sér að gömlu fólki verði ekki boðið upp á það að þurfa að liggja heima við hraklegar aðstæður oft árum saman án þess að sjá lausn á sínum málum. Þess vegna er þessi fyrirspurn flutt, herra forseti, og ég vænti góðra svara frá hæstv. heilbr.- og trmrh.