Dvalarrými fyrir aldraða

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:36:57 (3209)

1999-02-03 13:36:57# 123. lþ. 58.1 fundur 139. mál: #A dvalarrými fyrir aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., heilbrrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:36]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir):

Virðulegi forseti. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er nokkuð langt síðan þessi fyrirspurn var fram lögð og mörgu af því sem hér er spurt um hefur þegar verið svarað, svarað í verki ef svo má segja. Mér finnst þó rétt að fara betur yfir nokkur atriði, en starfshópur heilbr.- og trmrn. og Reykjavíkurborgar kom með tillögur um úrræði í hjúkrunarþjónustu við aldraða í Reykjavík og skilaði áliti í maí sl.

Starfshópurinn gekk út frá því að bið eftir hjúkrunarrými væri ekki lengri en 90 dagar frá því að brýn þörf fyrir hjúkrunarrými er metin. Það er samdóma álit hópsins að hámarksbið eftir hjúkrunarrými sé 90 dagar.

Allar tillögur sem hér liggja fyrir eru í beinu framhaldi af þessari úttekt. Það er ljóst að 176 einstaklingar á Reykjavíkursvæðinu eru í brýnni þörf fyrir hjúkrunarrými. Á landinu öllu eru 222 á biðlista.

Á þessu ári er áformað að taka í notkun 130 ný hjúkrunarrými í Reykjavík og einnig er verið að breyta dvalarrýmum í hjúkrunarrými. Eins og fram hefur komið er áætlað að byggja í Reykjavík 60 rýma hjúkrunarheimili og er ætlað á fjárlögum 72 millj. kr. til þess verkefnis.

1. desember voru tekin í notkun í Ási í Hveragerði 26 ný rúm og léttir það mjög á Grund, en þessir einstaklingar hefðu annars farið á Grund. 25 ný rúm verða tekin í notkun í Garðabæ nú fljótlega og í Víðinesi verður pláss fyrir 40 hjúkrunarsjúklinga innan skamms en áætlað er nú alveg á næstu mánuðum að opna þar 19 rúm. Auk þess er í undirbúningi að koma upp deild fyrir 12 einstaklinga með heilabilun.

Hv. þm. sagði réttilega að þrátt fyrir allar þær aðgerðir sem hér er talað um, væri vandinn enn þá stór. Þegar við höfum komist fyrir mesta vandann sem verður árið 2000, þá þurfum við a.m.k. tíu ný rúm á hverju ári samkvæmt þeim áætlunum sem liggja fyrir.