Dvalarrými fyrir aldraða

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:43:23 (3212)

1999-02-03 13:43:23# 123. lþ. 58.1 fundur 139. mál: #A dvalarrými fyrir aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:43]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. heilbrrh. fyrir svörin. Ég átta mig satt að segja ekki alveg á því hvernig þetta kemur út. Það er talað um að nú séu 177 á Reykjavíkursvæði í mjög brýnni þörf. Hvaða svæði er það? Það er væntanlega Reykjavík, Kópavogur, Hafnarfjörður, Garðabær, Seltjarnarnes. Á þessu svæði eru 177 og síðan er gert ráð fyrir því að tekin verði í notkun á þessu ári --- eða er það ekki rétt hjá mér? --- 77 rými á þessu sama svæði, þ.e. 25 í Garðabæ, 40 í Víðinesi, innan skamms eins og hæstv. ráðherra orðaði það, og síðan verði tekin í notkun 12 rúma deild fyrir heilabilaða aldraða einstaklinga. (GHall: 60 á þar næsta ári.) Á þar næsta ári? Mér sýnist með öðrum orðum, herra forseti, að það þurfi að skýra aðeins betur hvað hér er um að ræða. Mér sýnist að veruleikinn sé hvað sem öllu líður sá að í lok ársins 1999, hins mikla velferðarárs, góðærisárs, kosningaársins 1999, verði hér um 100 manns á þessu svæði enn þá í mjög brýnni þörf fyrir þjónustu. Ég spyr hæstv. ráðherra í fyrsta lagi: Er þetta ekki rétt hjá mér? Í öðru lagi vil ég segja að mér finnst að það eigi að nota ár aldraðra til að taka ákvarðanir um að þessi, mér liggur við að segja, blettur á velferðarkerfinu verði þurrkaður út. Það verður að ganga þannig frá þessum málum að hjúkrunarrými fyrir aldraða verði boðleg. Ég bendi á að á síðasta ári aldraðra settum við okkur svona markmið og gerðum áætlanir um Framkvæmdasjóð aldraðra sem því miður voru síðan brotnar niður og peningarnir þaðan, sem áttu fara til að byggja upp þjónustu hér á þéttbýlissvæðinu, voru teknir til þess að byggja upp þjónustu annars staðar þar sem þörfin var þó miklu minni. Og nú er enn þá einu sinni sagt við okkur Reykvíkinga: Nú er röðin komin að Reykjavík. Það er búið að segja þetta mjög oft, herra forseti, í heilbrigðismálum á Íslandi.