Dvalarrými fyrir aldraða

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 13:45:48 (3213)

1999-02-03 13:45:48# 123. lþ. 58.1 fundur 139. mál: #A dvalarrými fyrir aldraða# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., KF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[13:45]

Katrín Fjeldsted:

Herra forseti. Það er ljóst af þeim upplýsingum sem komu fram frá heilbrrh. áðan að mikið er verið að gera í þessum málaflokki og er það vel því þörfin er mikil. Maður sá fyrir sér fyrir nokkrum árum að þetta væri eins og hvert annað óleysanlegt verkefni en það hillir undir að hægt verði að mæta mestu þörfinni á allra næstu missirum. Þegar maður hefur unnið, eins og ég, sem læknir með gömlu fólki þá þekkir maður hvað það þýðir þegar talað er um að þörfin sé brýn og maður þekkir líka hvað það þýðir að hún sé mjög brýn. Það er erfitt fyrir roskinn einstakling sem þarfnast hjúkrunar að þurfa að bíða og má segja að hver dagur sé erfiður. Það er líka erfitt fyrir aðstandendur. En það sem mig langaði að bæta inn í þessa umræðu er möguleikinn sem var nefndur með útboð. Ég tel að sá möguleiki sé vannýttur að einstaklingar sem hafa til þess menntun og þekkingu taki að sér lítinn hóp aldraðra, kannski þrjá, fjóra eða fimm sjúklinga ef faglegum kröfum er fullnægt. Ég held að það sé mjög æskilegur kostur sem megi athuga til viðbótar.