Ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:00:52 (3219)

1999-02-03 14:00:52# 123. lþ. 58.2 fundur 175. mál: #A ferðakostnaður aðstandenda ungra fíkniefnaneytenda# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:00]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Í máli hæstv. ráðherra kom fram að fíkniefnaneyslan er viðurkennd sem alvarlegur sjúkdómur. Við horfum fram á þá staðreynd að fíkniefnaneysla hefur aukist verulega meðal barna og ungmenna og að allir fræðimenn, sem hafa fjallað um þetta, ég tala nú ekki um þá foreldra, sem eiga börn sem hafa ánetjast fíkniefnum, leggja áherslu á þá miklu nauðsyn sem er á því að foreldrar og systkini taki þátt í meðferðarstarfinu.

Enn og aftur erum við að reka okkur á það að annars vegar er um að ræða kerfi innan heilbrigðisgeirans og hins vegar innan félagsmálageirans. Þegar meðferðarheimili fyrir börn og ungmenni, sem eru flest staðsett úti á landi, eru rekin af félagsmálageiranum er ekki um það að ræða að foreldrar fái greidda þátttöku í ferðakostnaði, hvað þá gistingu, en eðlilega er þó ætlast til þess að þau mæti og taki þátt í meðferðarstarfinu. Þau þurfa líka mjög mikið á því að halda. Það er ljótur blettur á starfi okkar innan heilbrigðis- og félagsmálageirans að við skulum ekki hafa tekið á þessu vegna þess að það er mjög stór þáttur í því að meðferðin takist vel og virki eftir að einstaklingurinn er kominn heim að foreldrarnir taki þátt í starfinu.

Ég beini því til hæstv. ráðherra þeirri spurningu sem ég lagði fram í fyrri lið í fyrirspurninni þar sem segir: Mun hæstv. ráðherra beita sér fyrir því að þessum reglum verði breytt? Hvað með foreldra sem eiga börn í meðferð úti á landi? Ég veit um dæmi þess að þátttaka foreldra í meðferðarstarfi hefur kostað tugi þúsunda og jafnvel að foreldrar hafi þurft að taka bankalán til þess að geta tekið þátt í meðferðarstarfinu. Vegna bágs fjárhags hafa þeir þurft að leita eftir lánafyrirgreiðslu til að geta tekið þátt í þessu starfi. Mun ráðherra beita sér fyrir breytingum?