Rannsóknir Margrétar Guðnadóttur

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:22:56 (3228)

1999-02-03 14:22:56# 123. lþ. 58.5 fundur 312. mál: #A rannsóknir Margrétar Guðnadóttur# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi SvG
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:22]

Fyrirspyrjandi (Svavar Gestsson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra fyrir svörin. Þetta er í alvöru talað spurning um fjárhagslega getu stofnunarinnar að Keldum sem heyrir að vísu undir menntmrn. Auðvitað ætti að ræða þetta við hæstv. menntmrh. en ég tel þó mikilvægt að heilbrrn. sinni þessum málum sérstaklega. Margrét var eins og kunnugt er lengi starfsmaður heilbrrn. sem starfsmaður Ríkisspítalanna eins og kunnugt. Ég tel því að þetta sé mál heilbrrn. líka.

Mér finnst reyndar að það að samþykkja þessa tillögu upp á 2 millj. kr. sé bæði göfugt og þakkarvert en væri ekki tilefni til að reisa sig aðeins meira þegar kemur að svo stórfelldum tíðindum eins og þessum rannsóknum Margrétar Guðnadóttur? Væri ekki skynsamlegt að ráðuneyti heilbrigðismála og menntamála tækju sig saman um að gera sérstakt átak í því að tryggja það að hún geti áfram stundað rannsóknir sínar myndarlega? Ég skora á hæstv. heilbrrh. að beita sér fyrir því. Svo getur fjárhúsið fylgt með ef hlutirnir þróast þannig en það er nauðsynlegt líka í þessu sambandi. Það er eins og kunnugt er orðið lítið um fjárhús í mínu kjördæmi, Reykjavík, en vafalaust má bæta úr því. Ég held að við eigum að sýna þá reisn og myndarskap þegar svona tíðindi verða að taka glæsilega á móti þeim. Þetta eru mál sem geta gagnast mannkyni öllu og umheiminum ekkert síður en okkur sjálfum.