Sjúkraflutningar

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:26:23 (3230)

1999-02-03 14:26:23# 123. lþ. 58.7 fundur 337. mál: #A sjúkraflutningar# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi MF
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:26]

Fyrirspyrjandi (Margrét Frímannsdóttir):

Virðulegi forseti. Fyrir rúmu ári eða jafnvel lengri tíma var tekin sú ákvörðun að semja við Rauða kross Íslands um sjúkraflutninga á öllum heilsugæslusvæðum landsins. Áður voru þessi mál í mörgum tilvikum í höndum mismunandi aðila, t.d. lögreglu eða björgunarsveita.

Lítið hefur heyrst af því sem gerðir samningar við Rauða kross Íslands hafa skilað, hvorki hvað varðar fjárhagslega útkomu né veitta þjónustu. Í einhverjum tilvikum var um að ræða megna óánægju þeirra sem málið snertir, þ.e. íbúa viðkomandi heilsugæslusvæðis, úti á landi sérstaklega, og yfirmanna heilsugæslu og þeirra sem áður höfðu séð um sjúkraflutninga. Ég minnist þess að þingmenn Sunnlendinga fengu slíkt kvörtunarbréf frá einu heilsugæslusvæðinu í kjördæminu og einnig hafa birst fréttir í dagblöðum um óánægju og samráðsleysi við heimamenn og aðra sem hlut eiga að máli.

Á þskj. 428 beini ég eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbr.- og trmrh.:

,,Hefur verið gengið frá samningum við Rauða kross Íslands um sjúkraflutninga á öllum heilsugæslusvæðum landsins? Ef ekki, um hvaða svæði er að ræða þar sem samið hefur verið við aðra aðila?

Eru einhver tilvik þar sem þetta verkefni var tekið frá aðilum á viðkomandi heilsugæslusvæði án samkomulags við þá aðila eða heimamenn? Ef svo er, um hvaða svæði er að ræða og hver er ástæða þess að það var gert?``

Einnig væri fróðlegt að heyra frá hæstv. ráðherra hvort þeim aðilum sem misstu sjúkraflutningana úr sínum höndum hafi í einhverjum tilvikum verið greiddar bætur, t.d. til björgunarsveita eða hvort fram hafi komið krafa um slíkt.