Fjarnám og fjarkennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 14:49:30 (3240)

1999-02-03 14:49:30# 123. lþ. 58.8 fundur 268. mál: #A fjarnám og fjarkennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[14:49]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Varðandi Verkmenntaskólann á Akureyri, þá er rétt að tilraunastarfi hans á þessu sviði er lokið. Ég sagði að fleiri skólar sæktust nú eftir að fá heimild til að bjóða fjarkennslu og þau mál eru til athugunar. Það mun verða haldin ráðstefna á vegum menntmrn. og Skýrslutæknifélags Íslands um upplýsingatækni og skólastarf í lok þessa mánaðar. Þar munu öll þessi sjónarmið verða kynnt. Það er gífurlegur áhugi á þessari ráðstefnu og ljóst að þar verður dregið fram það nýjasta og besta sem við höfum yfir að ráða á þessu sviði. Þar munu menn fá tækifæri til að bera saman bækur sínar og kynnast einnig því sem við blasir í nánustu framtíð. Ég vona að okkur takist að stilla þannig saman strengina að kraftarnir nýtist sem best og það er einnig markmiðið með markáætlun um rannsóknir í upplýsingatækni og umhverfismálum sem var kynnt í gær. Þar er veitt fé til að efla rannsóknir, þróun og vísindi á sviði upplýsingatækni sem er nauðsynlegt til að ná markmiðum okkar. Einn hv. ræðumaður nefndi réttilega að við ættum að hafa þau bestu og háleitustu markmið sem menn settu sér á heimsmælikvarða miðað við þá útbreiðslu sem tölvur hafa hér og þá þekkingu sem fyrir hendi er í landinu varðandi nýtingu tölvutækninnar.

Spurt var um grunnskólann og hvað gert væri á því sviði. Það sem menntmrn. hefur gert varðandi grunnskólann er í fyrsta lagi að veita styrk til að gera tilraunir með fjarnám á grunnskólastigi. Þær fara fram í skólum á Ströndum og einnig hefur ráðuneytið veitt fé til þriggja grunnskóla sem eiga að vera þróunarskólar við nýtingu upplýsingatækninnar og þriggja framhaldsskóla sem gegna eiga sama hlutverki. Ég lít þannig á að þessir skólar muni ekki aðeins þróa nýtingu tækninnar innan dyra í skólanum heldur einnig nýtingu tækninnar við fjarnám og fjarkennslu þegar fram líða stundir.