Náttúrufræðikennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:02:26 (3245)

1999-02-03 15:02:26# 123. lþ. 58.10 fundur 357. mál: #A náttúrufræðikennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:02]

Fyrirspyrjandi (Svanfríður Jónasdóttir):

Herra forseti. Menn hafa löngum haft af því nokkrar áhyggjur að raungreinakennsla væri ekki eins mikil eða góð og skyldi. Og eitt af því sem nefnd um mótun menntastefnu lagði til á sínum tíma var að náttúrufræðikennsla í grunnskólum yrði skilgreind að nýju og efld. Þetta var fyrir daga TIMSS-kannana. En eftir að niðurstöður komu úr þeirri könnun hafa ýmis stór orð verið látin falla og flestir undirstrikað mikilvægi þess að efla náttúrufræðigreinar í skólum landsins. Að því héldum við öll að væri verið að vinna.

Það kom því á óvart, herra forseti, að ýmist málsmetandi fólk af raungreinasviðinu, 362 aðilar alls, meðal þeirra fyrrverandi og núverandi rektorar háskólastofnana, prófessorar og fjöldi kennara, m.a. úr Félagi náttúrufræðikennara á grunnskólastigi og Félagi raungreinakennara, sendi þingmönnum erindi hinn 2. desember sl. þar sem þessir aðilar lýstu í fyrsta lagi yfir þungum áhyggjum vegna stöðu náttúrufræðinnar í íslensku skólakerfi. En það sem kom meira á óvart var að þeir lýstu líka yfir áhyggjum vegna stöðu greinarinnar eins og hún birtist í viðmiðunarstundaskrá fyrir grunnskóla og var þar vísað í bæklinginn Enn betri skóli, þar sem verið er að fjalla um nýja skólastefnu.

Þeir telja að þeim metnaðarfullu markmiðum sem fram koma í metnaðarfullri námskrá í náttúrufræðum fyrir grunnskóla verði ekki náð með þeim tímafjölda sem viðmiðunarstundaskrá gerir ráð fyrir. Í ljósi þeirrar stöðu sem hefur verið og nýrra áherslna er talið óviðunandi að auka ekki tímafjölda í greininni. Í drögum sem þá voru að nýrri námskrá fyrir framhaldsskóla var gert ráð fyrir 50--70% niðurskurði í sérgreinum á náttúrufræðibrautum og að kjarnanám í náttúrufræðum til framhaldsskóla virtist stefna í að verða minna en 5% af námi til stúdentsprófs.

Herra forseti. Þær staðreyndir sem hér hafa verið raktar um þróun náms í náttúrufræðum ganga þvert á það sem menn hafa verið að tíunda sem mikilvægi og langt frá áherslum sem fram hafa komið, m.a. á hv. Alþingi. Ég hef því beint eftirfarandi fsp. til hæstv. menntmrh.:

,,Telur ráðherra að áætlanir um tímafjölda til kennslu í náttúrufræðigreinum sem fram koma í bæklingnum ,,Enn betri skóli`` og í drögum að nýrri námskrá fyrir framhaldsskóla samrýmist aukinni áherslu á náttúrufræðigreinar sem fram kom í kjölfar niðurstaðna TIMSS-könnunarinnar? Ef svo er ekki, hvernig hyggst ráðherra bregðast við?``