Náttúrufræðikennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:05:30 (3246)

1999-02-03 15:05:30# 123. lþ. 58.10 fundur 357. mál: #A náttúrufræðikennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:05]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Mér er nokkur vandi á höndum vegna þess að þessi fsp. er í raun sama eðlis og fsp. á þskj. 699 um náttúrufræði frá hv. þm. Svavari Gestssyni, og verður svarið við báðum fsp. í raun og veru hið sama af minni hálfu. Þannig er að við settum þetta fram í bæklingnum Enn betri skóli og kynntum þetta til þess að kalla fram viðbrögð og fá fram umsagnir og álit við nýju skólastefnuna sem við mundum síðan taka mið af þegar tillögur okkar um viðmiðunarstundaskrá og annað yrðu fullmótaðar.

Menntmrn. bárust einnig erindi frá Félagi náttúrufræðikennara í grunnskólum og ýmsum öðrum áhugamönnum um náttúrufræðikennslu í grunn- og framhaldsskólum. Viðræður fóru fram við fulltrúa þessara aðila og verkefnisstjórn um endurskoðun aðalnámskrár átti fund með talsmönnum hópsins og fór yfir málið. Menn skiptust á skoðunum og ráðuneytið hefur lagt verulega vinnu í að meta stöðuna á þessu sviði eins og öllum öðrum sem varða framkvæmd skólastefnunnar.

Að vandlega athuguðu máli ákvað verkefnisstjórnin að leggja það til við mig, og ég hef fallist á þær tillögur, að auka tíma í náttúrufræðikennslu í grunnskóla frá því sem áætlað var um eina vikustund í 7. og 8. bekk, og hefur náttúrufræðikennsla í grunnskólum þar með verið aukin úr 16--18 stundum á viku, samtals í 26 stundir á viku í 1.--10. bekk samkvæmt nýrri aðalnámskrá. Í framhaldsskólum var ákveðið að auka hlut náttúrufræða í kjarna úr sex einingum í níu einingar á málabraut og félagsfræðibraut með því að færa þrjár einingar af kjörsviði yfir í kjarna.

Í þessum breytingum sem við höfum gert, annars vegar á viðmiðunarstundaskránni og einnig á skipan kjarna á málabraut og félagsfræðibraut, höfum við tekið tillit til þeirra sjónarmiða sem fram komu frá Félagi náttúrufræðikennara og öðrum um hlut náttúrufræðinnar og ég held að enginn geti dregið í efa að komið sé til móts við þau sjónarmið. Einnig liggur alveg ljóst fyrir að hlutur þessara námsgreina er aukinn frá því sem áður var bæði í grunnskólum og framhaldsskólum.