Náttúrufræðikennsla

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:11:09 (3249)

1999-02-03 15:11:09# 123. lþ. 58.10 fundur 357. mál: #A náttúrufræðikennsla# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:11]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Það kemur mér á óvart að vera gagnrýndur fyrir að leggja fram stefnu til kynningar á síðasta vetri og óska eftir því að menn geri athugasemdir eða komi með skoðanir sínar fram við þá stefnu og síðan sé tekið mið af því sem menn vekja máls á þegar málið er fullunnið. Þannig var nú að þessari skólastefnu staðið og mótun hennar. Eins og hv. fyrirspyrjandi man e.t.v. eftir voru sendir bæklingar inn á hvert heimili í landinu. Síðan efndi ég til funda um landið allt og ræddi málið og hlustaði þar á skoðanir fundarmanna og síðan var einnig óskað eftir skriflegum umsögnum og athugasemdum. Það er það ferli sem hefur verið varðandi gerð námskránna á sama tíma og menn hafa síðan verið að skrifa námskrár fyrir einstakar greinar. Það er rétt ár síðan við kynntum þetta ferli og því er að ljúka núna. Ég held að það hafi almennt mælst vel fyrir nema hjá hv. ræðumanni að menn færu þá leið, að kynna fyrst og taka síðan mið af þeim athugasemdum sem fram hafa komið og leggja mat á það og taka ákvarðanir. Svo verður þetta kynnt núna með námskránum sem munu koma út á næstunni.

Hvað lýtur að spurningu hv. þm. Guðnýjar Guðbjörnsdóttur um hvenær þessu verði hrundið í framkvæmd, þá verður núna þegar málið er komið á þetta stig einnig haft samband við Námsgagnastofnun. Það verður hafin útgáfa og gerð á nýju námsefni í samræmi við nýju námskrárnar og náttúrufræðin er þar í forgangi. En ég hef alltaf sagt að það tæki a.m.k. þrjú ár að koma námskránum í framkvæmd en náttúrufræðin er eitt af forgangsverkefnunum.