Kennsla í íslensku

Miðvikudaginn 03. febrúar 1999, kl. 15:21:24 (3253)

1999-02-03 15:21:24# 123. lþ. 58.11 fundur 416. mál: #A kennsla í íslensku# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 58. fundur, 123. lþ.

[15:21]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil aðeins árétta það að ég tel að það sem við höfum verið að gera sýni fullan vilja til þess að sinna þessum málum. Af hálfu menntmrn. hefur margt verið gert eins og ég rakti, bæði veittur fjárhagslegur stuðningur og einnig hefur verið gerð úttekt og samin skýrsla um málið. Loks er ráðuneytið að semja námskrá fyrir útlendinga á fullorðinsaldri. Allt eru þetta tæki sem þarf til þess að ná þeim markmiðum sem við stefnum að svo þessir ágætu íbúar í landi okkar njóti fyllstu réttinda. Ég held að of fast sé að orði kveðið að segja að við höfum staðið þannig að málum að brotið hafi verið á mannréttindum þessa fólks. En betur má gera og að því stefnum við að. Ég tel að þegar liggi fyrir hugmyndir um það hvernig unnt er að ná enn betri árangri á þessu sviði.